Segja flugvélina fundna

Björgunarmenn að störfum í Zagros-fjallgarðinum, þar sem flugvélin hrapaði.
Björgunarmenn að störfum í Zagros-fjallgarðinum, þar sem flugvélin hrapaði. AFP

Búið er að finna flugvélina sem hrapaði í Zagros-fjöllum í Íran á sunnudag að sögn íranskra ríkisfjölmiðla og bíða ættingjar þeirra 66 sem voru um borð í vélinni nú milli vonar og ótta eftir fréttum af afdrifum þeirra. Talsmaður íranska loftferðareftirlitsins hefur þó ekki viljað stafesta fundinn.

Óttast er að allir þeir sem voru um borð í vél Aseman-flugfélagsins hafi farist. Öflugir vindar og mikill snjóþungi gerði björgunarsveitum erfitt um vik að komast að vélinni og urðu björgunarsveitir t.a.m. að hætta leit í gærkvöldi vegna veðurs.

Vélin var á leiðinni frá höfuðborginni Tehran til borgarinnar Yasuj, sem er í suðvesturhluta landsins. Hún hrapaði um klukkustund eftir flugtak og er um 22 km frá Yasuj að því er BBC greinir frá.

Ættingjar þeirra sem um borð voru hafa komið saman við …
Ættingjar þeirra sem um borð voru hafa komið saman við mosku í nágrenni flugvallarins í Tehran. AFP

Flugvélin var 25 ára gömul tveggja hreyfla vél samkvæmt upplýsingum frá íranska loftferðaeftirlitinu.

Líkt og áður sagði hamlaði veður leitaraðgerðum. „Vindarnir voru að aukast og þegar snjórinn, regnið og myrkrið bættust við var ekki mögulegt að halda áfram leit í þessari hæð,“ sagði í frétt íranska ríkisútvarpsins.

Fimm þyrlur voru hins vegar sagðar tilbúnar að hefja leit í dögun ef veður lægði.

60 farþegar, tveir öryggisverðir, tvær flugfreyjur og tveir flugmenn voru um borð í vélinni.

Aseman-flugfélagið tilkynnti strax eftir að vélin hrapaði að allir sem um borð voru hefðu látist, en dró þá yfirlýsingu síðar til baka þar sem aðstæður á svæðinu séu slíkar ekki sé hægt að staðfesta hvort einhverjir hafi lifað slysið af.

AFP-fréttastofan segir ættingja þeirra sem um borð voru hafa safnast saman í mosku í nágrenni Mehrabad-flugvallarins í Tehrean. „Ég fæ mig ekki til að trúa þessu,“ sagði einn ættingjanna.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert