Sýknaðir af Boko Haram tengslum eftir 8 ár

Hópréttarhöld hafa staðið yfir í Nígeríu undanfarna viku yfir hluta ...
Hópréttarhöld hafa staðið yfir í Nígeríu undanfarna viku yfir hluta þess hóps sem setið hefur í varðhaldi, jafnvel árum saman, vegna meintra tengsla við Boko Haram hryðjuverkasamtökin. AFP

Þegar bifvélavirkjarnir og tvíburabræðurnir Taye og Kehinde Hamza samþykktu að gera við bíl á verkstæði sínu í Bauchi fylki í Nígeríu árið 2010, hvarflaði aldrei að þeim hverjar afleiðingarnar yrðu. Bíllinn var í eigu eins vígamanna Boko Haram hryðjuverkasamtakanna og vinnan við bílinn leiddi til handtöku þeirra. Það liðu átta ár þar til bræðurnir, sem voru leystir úr haldi í dag, voru sýknaðir ásamt 473 öðrum, af ákærum um hryðjuverk.

Fjórir dómarar hafa undanfarna viku verið á hlýða á mál einstaklinga sem setið hafa í varðhaldi vegna meintra tengsla sinna við Boko Haram. BBC segir að enn sem komið er hafi mun fleiri verið sýknaðir vegna skorts á sönnunum, heldur en hafa hlotið dóm.

Meðal þeirra sem sýknaðir voru í síðustu viku voru börn og eldri borgarar. Sumir þeirra höfðu, líkt og Hamza tvíburarnir, setið í varðhaldi frá 2010.

Mariam Mohammed, sem kemur frá Borno fylki, var handtekinn af hermönnum er hún flúði bækistöð Boko Haram í Sambisa skógi 2014. Hún hafði verið lokkuð inn í skóginn og þar var hún látinn giftast einum vígamannanna er hún var 11 ára gömul, að því er segir í yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneyti Nígeríu.

Hún kom svo fyrir rétt í síðustu viku með þriggja mánaða barn í fanginu.

Sumir fanganna þjást af geðsjúkdómum

Langtímaáhrif fangelsisvistarinnar á fólkið liggur enn ekki fyrir, en samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu þá þjást sumir þeirra sem verið hafa í varðhaldi af geðsjúkdómum. Ekki er hins vegar vitað hvort að sjúkdómarnir hafi verið undirliggjandi áður en fólkið var handtekið.

Sambærileg hópréttarhöld voru haldin í október og voru rúmlega 400 manns þá látin laus, en ekki nema 45 voru fangelsaðir fyrir þátt sinn í uppreisnaraðgerðum Boko Haram, sem hafa kostað rúmlega 20.000 manns lífið og hrakið milljónir á brott frá heimilum sínum.

Abubakar Malami, dómsmálaráðherra Nígeríu, sagði BBC að þeir sem hafa verið sýknaðir muni fá endurhæfingu áður en þeim verður leyft að sameinast fjölskyldum sínum.

Þó að hópréttarhöldin fækki vissulega löngum varðhaldslistum, eru engu að síður enn um 5.000 manns sem bíða eftir að réttað verði í máli þeirra.

Til þessa hafa dómararnir dæmt 205 manns seka um brot á hryðjuverkalögum, þar á meðal þann sem stóð að ráninu á skólastúlkunum í Chibok. Upphaflega var Haruna Yahaya, dæmdur sekur fyrir að hafa átt þátt í ráninu. Á föstudag var hann hins vegar dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir að vera höfuðpaurinn að ráninu. Sjálfur fullyrðir hann hins vegar að hann hafi verið ófús þátttakandi.

mbl.is
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...
Lincoln Capri Landau árg. 1957
Bíllinn er lítið ekinn og aðeins tveir eigendur frá upphafi í USA og einn hér he...
NOTAÐ&NÝTT
NOTAÐ&NÝTT er ný verslun á Skemmuvegi 6 á bak við Byko. Mikið úrval af fallegum ...
Húsaviðgerðir - husco.is
https://www.husco.is/...