Trump: Styður aukið bakgrunnseftirlit

Donald Trump Bandaríkjaforseti er nú sagður styðja tilraunir til að …
Donald Trump Bandaríkjaforseti er nú sagður styðja tilraunir til að bæta eft­ir­lit og bak­grunns­skoðanir á fólki sem kaup­ir byss­ur. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti styður tilraunir til að bæta eft­ir­lit og bak­grunns­skoðanir á fólki sem kaup­ir byss­ur, að því er BBC hefur eftir fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins, Söruh Sanders.

Sanders segir forsetann hafa rætt við John Cornyn, öldungadeildaþingmann Repúblikanaflokksins, um frumvarp sem hann átti þátt í að leggja fram.

Frumvarpinu, sem var lagt fram í fyrra, var ætlað að bæta eft­ir­lit og þær bak­grunns­skoðanir sem gerðar eru áður en einstaklingi er heimilað að kaupa skotvopn.

Tilkynning forsetans kemur eftir að yfirvöld greindu frá því að Nicholas Cruz, sem myrti 17 nemendur á Flórída í síðustu viku, hefði eignast byssu sína með löglegum hætti.

 „Viðræður eru í gangi og verið er að íhuga endurskoðun og forsetinn er hlynntur aðgerðum til að bæta bakgrunnskoðanir alríkislögreglunnar (FBI),“ sagði Sanders.

Núverandi athugunarkerfi byggir á því að lögreglumenn, hjá bæði alríkislögreglunni og hverju ríki fyrir sig, skrái í grunninn upplýsingar um sakfellingu og andlega heilsu einstaklinga, sem síðar gætu stöðvað skotvopnakaup viðkomandi.

Mikil brotalöm er hins vegar á þessu og vakti mikla athygli á síðasta ári er bandaríski flugherinn viðurkenndi að gleymst hefði að skrá ofbeldisdóm manns sem skaut 26 manns til bana í kirkju í Sutherland Springs í Texas.

Það var eftir þá skotárás sem Cornyn og öldungadeildarþingmaðurinn og demókratinn, Chris Murphy, lögðu fram frumvarp sitt.

BBC segir viðhorf Trumps til skotvopnalöggjafarinnar hafa tekið nokkrum breytingum, en í framboðsbaráttunni lagði hann áherslu á andúð sína á hertri skotvopnalöggjöf.

Þá sagði forsetinn á ráðstefnu Samtaka byssueigenda í Bandaríkjunum (NRA) að hann muni aldrei setja hömlur á þau stjórnarskrárbundnu réttindi Bandaríkjamanna að eiga og bera skotvopn.

Trump hefur þegar kennt FBI og andlegri heilsu Cruz um árásina á nemendurna, en hann hefur ekki enn tjáð sig um kröfur nemendanna sem fyrir árásinni urðu um herta byssulöggjöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert