Fékk forræði allra 13 barnanna

Kong Suriyamontol, lögmaður Mitsutoki Shigeta, ræðir við fréttamenn eftir að …
Kong Suriyamontol, lögmaður Mitsutoki Shigeta, ræðir við fréttamenn eftir að dómur hafði verið kveðinn upp í dag. AFP

Dómstóll í Bangkok hefur dæmt japönskum manni forræði yfir þrettán börnum sem hann gat með taílenskum staðgöngumæðrum. Dómurinn felur í sér að maðurinn er einn skráður foreldri barnahópsins.

Árið 2014 tengdi lögreglan í Taílandi Mitsutoki Shigeta með DNA-rannsókn við níu ungbörn sem fundust í íbúð í Bangkok. Að minnsta kosti fjögur börn til viðbótar voru síðar tengd honum. Málið vakti gríðarlega athygli og þótti afhjúpa „barnaverksmiðju“ í landinu. 

Á þessum tíma voru engin lög um staðgöngumæðrun í Taílandi og þangað leituðu útlendingar því í leit að legi til leigu. Eftir að málið komst upp voru sett lög sem banna útlendingum að greiða taílenskum konum fyrir að ganga með börn þeirra. 

Shigeta er sonur japansks kaupsýslumanns. Hann yfirgaf Taíland eftir að málið komst upp en höfðaði síðar mál gegn félagsmálayfirvöldum í landinu og vildi fá forræði yfir börnunum.

Dómarinn sagði við uppkvaðningu dómsins að hann hafi veitt föðurnum, sem hefði aldrei orðið uppvís að slæmri hegðun, forræðið til að tryggja hamingju og tækifæri fyrir börnin þrettán. 

Shigeta var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna. Hann er nú skráður eina foreldri barnanna þar sem allar staðgöngumæðurnar afsöluðu sér þeim rétti. 

Hann er af auðugum ættum og er sagður hafa efni á að tryggja börnunum góða umönnun, m.a. barnfóstrur til að aðstoða hann við uppeldið í Japan.

Börnin hafa allt frá árinu 2014 verið í umsjá félagsmálayfirvalda. Lögmaður Shigeta segir að nú verði haft samband við þau yfirvöld og næstu skref í málinu rædd. 

Shigeta réði staðgöngumæðurnar til starfa áður en bann við staðgöngumæðrun var sett í Taílandi. 

Í kjölfar bannsins færðist þessi starfsemi að miklu leyti til Kambódíu sem fylgdi í fótspor Taílands og bannaði útlendingum að greiða konum þar í landi fyrir að ganga með börn þeirra árið 2016.

Nú hefur starfsmeinn færst til Laos en þar eru engar hömlur sagðar vera á staðgöngumæðrun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert