Kemur til átaka Sýrlendinga og Tyrkja?

Sýrlenskir uppreisnarmenn hliðhollir Tyrkjum.
Sýrlenskir uppreisnarmenn hliðhollir Tyrkjum. AFP

Hermenn hliðhollir stjórnvöldum í Sýrlandi eru komnir til bæjarins Afrin í norðurhluta landsins sem verið hefur á valdi Kúrda. Tyrkneskar hersveitir og sýrlenskir bandamenn þeirra hafa að undanförnu gert ítrekaðar árásir á bæinn en hann er skammt frá landamærum Tyrklands. Óttast er að líkur á átökum á milli Sýrlands og Tyrklands hafi aukist.

Ríkisútvarp Sýrlands tilkynnti í gær að hersveitir yrðu sendar til Afrin til þess að bregðast við árásum Tyrkja. Ráðamenn í Tyrklandi hafa varað sýrlensk stjórnvöld við því að senda hersveitir til stuðnings Kúrdum. Ekki liggur hins vegar fyrir hversu margir hermenn hliðhollir Sýrlandsstjórn eru komnir til Afrin samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Tyrkir hafa heitið því að hreinsa Afrin af hersveitum Kúrda sem þeir telja að tengist Verkamannaflokki Kúrda (PKK) í Tyrklandi sem barist hefur fyrir sjálfstjórnarsvæði Kúrda í austurhluta landsins og tyrknesk stjórnvöld skilgreina sem hryðjuverkasamtök. Hersveitir Kúrda í Sýrlandi hafa hins vegar þvertekið fyrir að tengjast flokknum.

Kúrdar hafa farið með stjórn Afrin frá því að sýrlenskar hersveitir hörfuðu þaðan árið 2012 til þess að einbeita sér að baráttu gegn uppreisnarmönnum annars staðar í Sýrlandi. Sýrlensk stjórnvöld hafa lýst árás Tyrkja á Afrin sem árás á fullveldi Sýrlands.

mbl.is