Markaðssetja kameldýraþurrmjólk fyrir börn

AFP

Matvælafyrirtæki í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hefur nú sett á markað þurrmjólkurformúlu fyrir börn sem unnin er úr mjólk kameldýra. Er formúlan ætluð þeim börnum sem eru með ofnæmi fyrir kúamjólk.

Þurrmjólkin hefur fengið hið viðeigandi heiti „Camelicious“ og segir fyrirtækið þurrmjólkina vera þá fyrstu sinnar tegundar, en hún er til kynningar á matvælasýningu í Dubai þessa vikuna.

Kamelmjólkin er sögð henta börnum á aldrinum eins til þriggja ára, en er hugsuð sérstaklega fyrir þau ungabörn sem eru með ofnæmi fyrir kúamjólk.

Öldum saman var mjólk kameldýra fastur þáttur í fæðu Bedúína víðs vegar í ríkjunum fyrir botni Miðjarðarhafs og segir AFP marga þeirra enn neyta mjólkurinnar.

Mjólk kameldýra og kjöt dýranna nýtur nú raunar aukinna vinsælda og er þannig hægt að kaupa kameldýra-carpaccio, súkkulaði með kameldýramjólk og kameldýraborgara.

„Kameldýramjólk er órjúfanlegur hluti arabískrar og íslamskrar menningar og ekki hvað síst af menningu og arfleifð Sameinuðu arabísku furstadæmanna,“ segir Saeed Juma Bin Subaih, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. 

Kameldýr með afkvæmum sínum. Kameldýramjólk hefur verið hluti af matarvenjum …
Kameldýr með afkvæmum sínum. Kameldýramjólk hefur verið hluti af matarvenjum Bedúína um aldir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert