Vilja banna myndatökur undir pils

Ekkert í lögum bannar beinlínis myndatöku upp undir pils að …
Ekkert í lögum bannar beinlínis myndatöku upp undir pils að því er fram kemur í frétt BBC. Séu slík mál kærð sé það m.a. gert á grundvelli laga um friðhelgi einkalífs.

Hópur fólks hvetur bresk stjórnvöld til að banna óvelkomnar myndatökur undir pils með lögum. Þessi hegðun kallast „upskirting“ á ensku og ætti að mati stuðningsmanna lagasetningar að teljast sem kynferðisbrot. Fórnarlömbin eru allt í niður í tíu ára stúlkur.

Aðeins 11 slík mál hafa verið kærð frá árinu 2015 en óttast er að þau séu mun fleiri. Flest lögregluembætti halda enga skrá fyrir mál af þessum toga. 

Þar sem það telst ekki refsivert að taka mynd upp undir pils manneskju þá kærir lögreglan viðkomandi fyrir brot á öðrum lögum.

Lögreglan rannsakaði 78 mál sem þessi frá árinu 2015 en aðeins í ellefu tilvikum var gerandinn kærður.

Þingmaðurinn Maria Miller, sem er formaður nefndar um kvenréttindi, segir að meira þurfi að gera til að stöðva þessa „skelfilegu glæpi“. Hún segir að styrkja þurfi lagaumhverfið.

Sá gjörningur að taka mynd upp undir pils á sér stað í almannarými, á næturklúbbum, í verslunum og á veitingastöðum. Gerendurnir nota yfirleitt farsíma sína til verksins og fórnarlömbin eru iðulega stúlkur og ungar konur.

Í einu dæminu sem lögreglan rannsakaði hafði maður lagst á gólf með myndavél sína til að taka mynd upp undir pils konu. Í öðru tilviki hafði maður tekið mynd undir pils barns. Í þriðja tilvikinu sást á eftirlitsmyndavél þar sem maður tók mynd undir pils konu án hennar vitundar. Þá lá einn undir stiga á McDonalds veitingastað og tók myndir undir pils stúlkna er þær gengu þar niður. Starfsmenn staðarins kölluðu til lögreglu.

Í enn öðru tilvikinu sást á eftirlitsmyndavél að karlmaður elti ókunnuga konu vítt og breitt um verslun og reyndi að taka mynd undir pils hennar.

Clare McGlynn, lagaprófessor við Durham-háskóla, segir konur nær hvergi öruggar fyrir áreitni sem þessu. „Stjórnvöldum hefur mistekist að gera myndatökum upp undir pils að refsiverðu athæfi og það brýtur gegn mannréttindum kvenna.“

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert