Ákærðir fyrir Nutella-söluna

Nutella súkkulaðismyrja er vinsælt meðlæti á franska morgunverðarborðinu. Stjórnendur Intermarche …
Nutella súkkulaðismyrja er vinsælt meðlæti á franska morgunverðarborðinu. Stjórnendur Intermarche eiga nú yfir höfði sér háa sekt fyrir að selja vöruna undir kostnaðarverði. AFP

Frönsku Intermarche matvöruverslanirnar eiga nú yfir höfði sér málssókn vegna mikils afsláttar á Nutella súkkulaðismyrju. Afslátturinn leiddi til mikils handagangs í verslununum fyrr á þessu ári, er til átaka kom þegar neytendur reyndu að krækja í afsláttarkrukkurnar.

Myndbönd sem sýna fólk ýta hvert öðru og stimpast í baráttunni um Nutella krukkurnar hafa fengið mikla dreifingu á samfélagsmiðlum undanfarið. Súkkulaðismyrjan nýtur mikilla vinsælda á morgunverðarborði Frakka.

DGCCRF, stofnun sem rannsakar svikamál gegn neytendum, segir rannsókn sína sýna að Intermarche hafi selt súkkulaðismyrjuna undir kostnaðarverði. Hefur málið nú verið sent til saksóknara.

Intermarche á yfir höfði sér allt að 375.000 evra sekt fyrir uppátækið sem var ætlað til að fá neytendur til að kaupa aðrar vörur í versluninni. Intermarche var einnig með 70% afslátt af Pampers bleyjum, Carte Noire kaffi og Perrier sódavatni.

„Starfsmenn okkar hafa komist að þeirri niðurstöðu að Intermarche hafi ekki virt þær reglur sem gilda um sölu með tapi og telst það brot á hegningalögum,“ hefur  AFP-fréttastofan eftir talsmanni DGCCRF.

Intermarche hefur boðist afsökunar á þriggja daga tilboðinu sem leiddi jafnvel til harðra slagsmála í nokkrum verslunum. Tilboðið hljóðaði upp á 1,41 evru fyrir 950 g krukku af Nutella í stað þeirra 4,50 evra sem krukkan kostaði áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert