Merkel: Jafnast á við fjöldamorð

Angela Merkel kanslari Þýskalands.
Angela Merkel kanslari Þýskalands. AFP

Angela Merkel kanslari Þýskalands segir að stöðva verði „blóðbaðið“ í Sýrlandi. Linnulausar árásir stjórnarhersins á bæi og þorp í Ghouta-héraði hafa kostað um 300 almenna borgara lífið síðustu daga. Í morgun létust að minnsta kosti 13 í enn einni árásinni.

Merkel gagnrýnir Sýrlandsstjórn fyrir að ráðast gegn sínu eigin fólki. „Dráp á börnum, eyðilegging sjúkrahúsa – allt þetta jafnast á við fjöldamorð sem verður að fordæma og verður að svara með skýrum hætti: Nei.“

Árásir stjórnarhersins á svæðinu hafa staðið frá því á sunnudag. Austurhluti Ghouta er enn undir yfirráðum uppreisnarmanna og sækir herinn nú fram af hörku í þeirri viðleitni sinni að ná þar aftur völdum.

Í morgun var rigning og því voru ekki gerðar loftárásir heldur var eldflaugum skotið á borgina Douma þar sem þrettán féllu. Meðal hinna látnu eru þrjú börn. Á áttunda tug barna hafa fallið frá því á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert