Fundu stolið listaverk í rútu

Tollvörður heldur hér á mynd Degas, sem stolið var úr ...
Tollvörður heldur hér á mynd Degas, sem stolið var úr safni í Marseille fyrir níu árum. AFP

Listaverk eftir franska impressjónistann Edgar Degas, sem stolið var úr listasafni í Marseille í Frakklandi árið 2009, fannst nýlega í rútu í nágrenni Parísar.

Françoise Nyssen, menningarráðherra Frakklands, segir yfirvöld hafa uppgötvað verkið um borð í farangursgeymslu rútu sem hafði stoppað á bensínstöð við hraðbrautina.  Enginn farþeganna sem um borð voru hefur gengist við því að hafa verið með myndina. 

Sérfræðingar hafa nú staðfest að verkið sem fannst, sé í raun og veru verk Degas, Les Choristes , sem listamaðurinn vann með pastellitum árið 1877 og sem metið er á litlar 800.000 evrur eða um 99 milljónir króna.  

Verkinu var stolið úr Cantini safninu í Marseille árið 2009, er það var þar að láni frá d‘Orsay safninu í París. Yfirvöld gátu á þeim tíma ekki fundið nein merki um innbrot í safninu.

mbl.is