Vilja binda bólusetningu í lög

Verkamannaflokkurinn vill að farið verði í tilraunaverkefni í Ósló og …
Verkamannaflokkurinn vill að farið verði í tilraunaverkefni í Ósló og foreldrum í borginni skyldað að bólusetja börn sín. Thinkstock

Norski Verkamannaflokkurinn vill að foreldrum verði gert skylt að bólusetja börn sín, en mislingatilfellum fer nú fjölgandi í Noregi eins og víða annars staðar í Evrópu. Vonast flokkurinn eftir að fá þingið til að samþykkja tilraunaverkefni í Ósló þar sem gert verði skylt að bólusetja börn í borginni.

„Við teljum að það sé orðið tímabært að taka það skref,“ hefur norska ríkisútvarpið NRK eftir þingmanni flokksins, Tuvu Moflag, sem á einnig sæti í heilbrigðisnefnd þingsins.

NRK segir þrjú mislingatilfelli hafa greinst í austurhluta Noregs í þessari viku. Enginn hinna smituðu hafði verið bólusettur og allir þrír voru að koma til landsins eftir dvöl erlendis.

Í Ósló, líkt og öðrum sveitarfélögum í Noregi, er mælt með að börn séu bólusett áður en þau ná tveggja ára aldri. Nokkrir foreldrar hafa þegar í vikunni verið beðnir af heilbrigðisyfirvöldum að láta bólusetja börnin. 

Moflag segir alvarlegt mál þegar foreldrar koma börnum sínum í svo hættulegar aðstæður. Þess vegna vilji Verkamannaflokkurinn ganga lengra og skylda bólusetningu.

Ekki eru allir þingmenn stjórnarflokkanna hins vegar þessu sammála og því óvíst að frumvarpið nái í gegn.

„Þessi tillaga gengur of langt. Bólusetning þarf að byggja á trausti,“ segir Sveinung Stensland, þingmaður Hægri, sem einnig á sæti í heilbrigðisnefndinni.

Þá er Åse Michaelsen, ráðherra lýðheilsumála og þingmaður Frelsisflokksins, einnig efins um frumvarpið.

Moflag er hins vegar sannfærð um að það virki og auki aðhald með þeim foreldrum sem ekki láta bólusetja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert