500 saklausir borgarar fallið á einni viku

Sýrlenskar stjórnarhersveitir hafa fellt yfir 500 saklausa borgara undanfarna viku, en hersveitirnar hafa gert stórskotaárásir á svæði uppreisnarmanna í Austur-Ghouta skammt frá höfuðborginni Damaskus. 

Á meðal hinna látnu eru 121 barn að sögn talsmanna Sýrlensku mannréttindavaktarinnar sem fylgist náið með stríðsátökunum í landinu. 

Fram kemur á vef BBC, að sýrlenskir stjórnarhermenn, sem njóta stuðnings Rússa, hafi gert harðar árásir á svæðið frá því á sunnudag.

Fram hefur komið að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna eigi erfitt með að koma sér saman um orðalag ályktunarinnar til að kveða á um vopnahlé í landinu. Búið er að fresta atkvæðagreiðslu í öryggisráðinu nokkrum sinnum frá því á fimmtudag, en öryggisráðið á að koma aftur saman í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert