Bardot vill að börnin fái það sem þau eiga skilið

Brigitte Bardot liggur ekki á skoðunum sínum.
Brigitte Bardot liggur ekki á skoðunum sínum. AFP

Franska leikkonan Brigitte Bardot hefur bæst í hóp þeirra sem hafa tjáð sig um dánarbú og erðfdeilur sem tengjast franska tónlistarmanninum Johnny Halliday, en fjölskyldan hans á nú í deilum um hvernig búinu skuli skipt og hverjir eigi að erfa hinn látna,

Bardot, sem var gestur hjá franskri útvarpsstöð, hvatti ekkju Hallyday, Laeticiu, sem hefur verið nefnd sem aðalerfingi tónlistarmannsins, að láta fjármuni renna til elstu barna Hallyday. 

Söngvarinn David Hallyday og leikkonan Laura Smet fengu ekkert í arf frá föður sínum. Þau hafa höfðað dómsmál þar sem þau efast þau um réttmæti erfðaskrárinnar, að því er segir á vef BBC.

Hallyday lést í desember af völdum lungnakrabbameins. Hann var 74 ára. 

Í viðtali við útvarpsstöðina Europe 1 í dag sagði Bardot: „Ég er yfir mig hneyksluð. Ef ég væri Laeticia, þá myndi ég leiðrétta málin. Ég myndi láta þau David og Laura fá það sem þau eiga skilið að fá.“

Samkvæmt lögum um erfðarétt í Frakklandi, sem ná aftur til frönsku byltingarinnar, þá eiga öll börn að fá um það bil jafn stóran skerf.

Hallyday, sem átti heimili í Kaliforníu í Bandaríkjunum og var með heimilisfesti þar sökum skattamála, arfleiddi allar eigur sínar til Laeticiu, sem var fjórða eiginkona hans, og tveggja dætra þeirra sem hjónin ættleiddu.

Laura Smet, sem er 34 ára, og David Hallyday, sem er 51 árs, höfðuðu mál fyrir dómstólum í síðustu viku til að fá þessu hnekkt. Síðan þá hafa margir þekktir einstaklingar í skemmtanabransanum í Frakklandi tjáð sig um málið.

Franska rokkstjarnan Eddy Mitchell er einnig á meðal þeirra sem hafa lagt orð í belg. „Ég hreinlega skil ekki hvernig einhver getur gert börnin sín arflaus.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert