Limlestar til að forðast útskúfun

Nafi hefur verið yfirmaður verkefnisins frá árinu 2010.
Nafi hefur verið yfirmaður verkefnisins frá árinu 2010. mbl.is/Hari

Foreldar stúlkubarna víða í Afríku og Asíu líða oft vítiskvalir yfir því að þurfa að láta dætur sínar gangast undir limlestingar á kynfærum (e. female genital mutilation). Aðgerð sem er ekki bara sársaukafull og brot á mannréttindum, heldur getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, jafnvel leitt til dauða. Þrýstingur frá samfélaginu og stórfjölskyldunni er þó oft svo mikill að foreldrar telja sig eiga ekki annarra kosta völ svo að þau sjálf og dóttir þeirra verði ekki útskúfuð úr samfélaginu. Þetta segir yfirmaður verkefnis sem hefur það að markmiði að útrýma slíkum limlestingum á næstu árum eða áratugum.

Töluverður árangur hefur náðst á síðustu tíu árum í að draga úr limlestingum á kynfærum stúlkna og kvenna, sem gjarnan eru framkvæmdar í þeirri trú að þannig megi viðhalda meydómi þeirra og koma í veg fyrir að þær verði ótrúar eiginmönnum sínum. Um er að ræða aðgerðir sem fela í sér að ytri kynfæri kvenna eru fjarlægð að hluta til eða öllu leyti og jafnvel saumað fyrir leggöng. Mikill fjöldi kvenna verður fyrir óbætanlegum skaða, bæði líkamlega og andlega, vegna limlestinganna. Innan margra samfélaga í Afríku, og á fleiri svæðum, er þetta talinn nauðsynlegur undirbúningur fyrir fullorðinsár og hjónaband.

68 milljónir stúlkna í hættu 

Árið 2008 hófst samstarfsverkefni á milli UNICEF (Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna) og UNFPA (Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna) sem hefur það að markmiði að útrýma þessum limlestingum og hraða þeirri vinnu eins og hægt er. Verkefnið nær til 17 Afríkulanda, en langflestar þeirra kvenna sem limlestar hafa verið eru frá löndum Afríku.

UNFPA áætlar að rúmlega 200 milljónir stúlkna og kvenna í 30 löndum séu á lífi í dag sem hafi verið limlestar með þessum hætti. Flestar á tímabilinu frá fæðingu til 15 ára aldurs. Óttast er að um 68 milljónir stúlkna eigi á hættu að verða limlestar fyrir árið 2030 verði ekkert að gert.

Nafissatou Diop, yfirmaður samstarfsverkefnisins, var stödd hér á landi í vikunni til að endurnýja stuðning Íslands við verkefnið, en utanríkisráðuneytið hefur stutt verkefnið frá árinu 2011. Nafi, eins og hún er alltaf kölluð, segir stuðning landa eins og Íslands mjög mikilvægan, ekki bara fjárhagslega heldur líka pólitískum vettvangi.

31 milljón manna hefur látið af limlestingum

Nafi er félagsfræðingur að mennt og hefur haft umsjón með verkefninu frá árinu 2010. Hún er að vonum stolt af þeim árangri sem náðst hefur en segir engu að síður mikilvægt að spýta í lófana og halda vinnunni áfram „Við höfum nokkuð áreiðanlegar upplýsingar um að 31 milljón manna hafi ákveðið að hætta limlestingum limlestingum á kynfærum kvenna á síðustu árum, vegna okkar fræðslu og inngripa. En þeir sem hafa ákveðið að hætta eru pottþétt enn fleiri. Þetta eru eingöngu þær tölur sem við höfum.“

Það liggur því fyrir með nokkuð skýrum hætti að það sem er verið að gera er að virka sem skyldi. „Það eru fjölmargir sem hafa látið af þessari iðju. Þá eru fleiri og fleiri hópar sem styðja baráttunna og konurnar og stúlkurnar sjálfar eru að rísa upp. Þær eru að verða óhræddari við að segja upphátt að þær séu á móti limlestingum á kynfærum kvenna og einnig óhræddari við að deila reynslu sinni. Þessar raddir hjálpa öðrum til að rísa upp gegn hefðum. Segja: „Stopp, ég vil ekki láta gera þetta við dóttur mína.““

Hún bendir á að ef bornar eru saman tvær kynslóðir kvenna, þær sem eru á aldrinum 15 til 19 ára annars vegar og 45 til 49 ára hins vegar þá sjáist mikill munur. Mun færri í yngri hópnum hafa verið limlestar á kynfærum. „Það segir okkur mjög skýrt að þeim hefur fækkað sem framkvæma slíkar limlestingar.“

Leggöngin saumuð saman og lítið gat skilið eftir 

Nafi segir hins vegar mikla vinnu enn fyrir höndum, enda sé fæðingartíðni í þeim löndum þar sem slíkar limlestingar eru enn framkvæmdar há. Mikill fjöldi barna fæðist og þeim börnum sem eru í hættu fjölgar hratt. „Jafnvel þó við sjáum árangur og þeim fækki sem framkvæmi limlestingar, þá fæðast æ fleiri stúlkur sem eiga á hættu að verða limlestar. Við verðum að ganga úr skugga um að þessar stúlkur fái þá vernd sem þær þurfa. Há fæðingartíðni og mikil fólksfjölgun er ein af þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum því að hraða vinnu að markmiði okkar, að útrýma þessum limlestingum.“

Talið er að um 31 milljón manna hafi látið af …
Talið er að um 31 milljón manna hafi látið af limlestingum á kynfærum kvenna. Pokot ættbálkurinn í Úganda er í þeim hópi. AFP

Limlestingar á kynfærum kvenna eru eingöngu menningarlegs eðlis en ekki trúarlegs og virðist viðhaldið vegna hefða innan samfélaga eða ættbálka. „Í einu og sama landinu geta verið samfélög sömu trúar, sem stunda þessar limlestingar og önnur sem gera það ekki. Þetta tengist því eingöngu menningu. Við vitum ekki hvers vegna sum samfélög hafa tekið upp þennan sið á meðan önnur á nálægu landsvæði hafa ekki gert það. Þetta gæti haft eitthvað með þjóðflutninga fyrir hundruð eða þúsundum ára að gera. Við teljum að þessi hefð hafi komið frá Egyptalandi, með Faróunum. Faróarnir áttu margar eiginkonur og til að þær væru eiginmanninum trúar voru þær látnar sæta limlestingum á kynfærum.“

Ein tegund af skurði sem er gerður á konum er einmitt kallaður Faróa-skurður, en í þeim tilfellum er lokað fyrir leggöng konunnar þannig að hún getur ekki haft samfarir. Þá eru snípurinn, innri og ytri skapabarmar fjarlægðir og saumað fyrir. Aðeins er skilið eftir lítið gat svo stúlkurnar geti losað sig við þvag. „Hugmyndin virðist hafa verið sú að svona mætti viðhalda meydómi kvenna og koma í veg fyrir að þær héldu framhjá eiginmönnum sínum,“ útskýrir Nafi.

Geta ekki streist á móti hefðunum 

Tæknilega séð er það foreldra stúlkna að ákveða hvort þær sæti slíkum limlestingum eða ekki, en Nafi segir þrýsting samfélagsins, eða eldri ættingja, þó oft svo mikinn að foreldrarnir hafi ekki annarra kosta völ. „Við þurfum að hafa í huga að yfirleitt er bæði tengdafjölskylda og stórfjölskylda til staðar. Ættingjar hafa oft mikið að segja um það hvernig uppfræðslu og uppeldi barnanna er háttað og þetta er hluti af því. Þeir foreldrar sem eru mikið á móti þessu og segja nei, en eiga ekki í miklu sambandi við aðra fjölskyldumeðlimi, geta verndað dætur sínar. Svo eru foreldrar sem segja nei en ættmóðirin segir já. Þá er allt eins líklegt að hún taki stúlkubarnið og láti gera þetta. Þess vegna er svo mikilvægt að sannfæra alla fjölskylduna, allt samfélagið, um að slíkar limlestingar hafi engan ávinning í för með sér, aðeins skaðsemi.“

Nafi segir fjölskyldur jafnvel eiga það á hættu að vera útskúfaðar ef þær gangi gegn viðurkenndum hefðum síns samfélags. „Stúlka sem ekki hefur verið skorin getur orðið jaðarsett í samfélaginu. Hún á að hættu að það sé hlegið að henni. Hún ekki talin kona. Þá getur verið erfitt fyrir hana að eignast eiginmann innan samfélagsins.“

Upplifa sig í fangelsi innan samfélagsins

Að sögn Nafi eru foreldrar og ættingjar meðvitaðir um áhættuna sem fylgir limlestingum á kynfærum, en þær eru engu að síður framkvæmdar.

„Ég hef sjálf hitt konu sem sagði það hafa verið versta dag lífs síns, þegar hún fór með dóttur sína í aðgerðina. Það var fjölskyldunni mikið áfall. En þau töldu það nauðsynlegt svo stúlkan yrði viðurkennd í samfélagi þeirra. Stundum upplifir móðirin eða fjölskyldan sig í fangelsi, en veggir fangelsisins eru augu annarra í samfélaginu. Þess vegna er svo mikilvægt að gefa þeim sem eru á móti limlestingunum vettvang til að tjá sig á. Vettvang þar sem fólk með sömu skoðanir getur tengst öðrum í sömu sporum. Þegar við tengjum saman fólk erum við komin með hóp. Tíu manns eru sterkari en ein manneskja. Við leggjum áherslu á að tengja fólk saman sem hefur skipt um skoðun. Fólk sem er á móti limlestingum. Við þurfum að fá fjöldann til að tala um þetta. Benda á þetta í sjónvarpinu og á samfélagsmiðlum.“

Eiginmaðurinn ristir upp leggöngin fyrir samfarir  

Líkt og fram hefur komið er um mjög sársaukafulla og áhættusama aðgerð að ræða, sem hefur engan ávinning í för með sér, og í mörgum tilfellum leiðir stúlkur til dauða. Oft eru stúlkurnar skornar með óhreinum áhöldum og fá ekki viðeigandi læknishjálp í kjölfarið.

Talið er að 68 milljónir stúlkna séu í hættu á …
Talið er að 68 milljónir stúlkna séu í hættu á að verða limlestar á kynfærum á næstu árum verði ekkert að gert. AFP

„Mesta hættan er auðvitað sú að stúlkurnar geta dáið. Við erum allar mismunandi eins og við erum margar. Þetta gæti haft litlar afleiðingar fyrir mig en systir mín gæti dáið. Jafnvel þrátt fyrir að þetta sé gert á spítala og af lækni þá er áhættan sú sama. Ég þekki dæmi um egypska stúlku sem farið var með á heilsugæslustöð og læknir skar hana, en hún lést engu að síður,” segir Nafi. Hún bendir á að stúlkurnar geti einnig orðið fyrir andlegu áfalli og að þær þjáist mikið andlega vegna limlestinganna. Þá geta þær átt í erfiðleikum með þvaglát og tíðablóð skilað sér illa, sem getur valdið ýmsum vandkvæðum.

Nafi segir einnig þurfa að huga að mörgu þegar konur eignast börn eftir að hafa gengist undir þessa aðgerð. Áhættan við barnsburð er mun meiri en hjá öðrum konum. „Þær konur sem hafa verið skornar þannig að snípur, ásamt ytri og innri skapabörmum hafa verið fjarlægðir, og þær saumaðar alveg saman, geta átt í miklum erfiðleikum við barnsburð. Þær missa meira blóð en aðrar konur og þurfa að dvelja lengur á sjúkrahúsi. Það er meiri hætta á bráðakeisara því teygjanleiki leggangnanna er ekki jafnmikill og hjá öðrum konum. Þá eru meiri líkur á andvana fæðingum, vegna þess að fæðingin tekur lengri tíma og það er álag fyrir barnið. Í hvert skipti sem þessar konur eignast börn þarf að opna þær, opna þær þar sem leggöngin voru saumuð saman þegar þær voru litlar stúlkur. Svo þarf að loka þeim aftur. Þær sem eignast mörg börn þurfa því kannski að ganga í gegnum þessar limlestingar sex eða sjö sinnum um ævina. Jafnvel oftar.”

Þetta getur líka þurft að gera fyrir samfarir að sögn Nafi. „Það getur verið mjög sársaukafullt fyrir þessar konur að hafa samfarir. Stundum þarf jafnvel að opna þær svo eiginmaðurinn geti haft við þær samfarir. Eiginmaðurinn tekur því stundum hníf og sker aðeins í þær til að opna leggöngin. Það er mjög sársaukafullt.“

Nafi segir einnig mikilvægt að minna á að um brot á mannréttindum er að ræða. Um sé að ræða ákveðna birtingarmynd á kynbundnu ójafnrétti og ofbeldi sem verði að linna.

Mikilvægt að skapa umræðuvettvang

Samstarfsverkefni UNICEF og UNFPA er unnið á margvíslegum vettvangi í 17 löndum, en Nafi segir vinnuna meðal annars fela í sér að styðja ríkisstjórnir þar sem ekki er löggjöf til staðar sem bannar limlestingar á kynfærum kvenna, í að setja slík lög. „Við viljum að þessi framkvæmd verði skilgreind sem glæpsamlegt athæfi og að við henni liggi viðurlög. Við styðjum því ríkisstjórnir í því að setja slíka löggjöf.“ Nafi segir löggjöf vera til staðar í nokkrum Afríkulöndum, en þar sé oft skortur á því að viðurlögum sé beitt. „Þó að lögin séu til staðar þá heldur fólk áfram að gera það sem það vill. Við erum að reyna að virkja lögfræðinga og saksóknara svo þeir sem framkvæma slíkar limlestingar verði sóttir til saka.“

Chepchai Limaa framkvæmdi limlestingar á kynfærum kvenna fyrir Pokot-ættbálkinn. Hún …
Chepchai Limaa framkvæmdi limlestingar á kynfærum kvenna fyrir Pokot-ættbálkinn. Hún er ein af þeim sem hefur látið af þeirri iðju. Myndin er tekin í helli þar sem stúlkur fengu að hvílast eftir aðgerðina. AFP

Nafi segir skipta miklu máli hvert fjármagnið fari sem veitt er til verkefnisins. Meðal annars sé verið að fjármagna fræðslustarfsemi á vegum frjálsra félagasamtaka og umræðuvettvang þar sem fólk getur komið saman, rætt limlestingar og tilganginn með að útrýma þeim. „Það eitt og sér að veita fólki upplýsingar er ekki nóg. Það er mikilvægt að fólk geti komið saman og rætt hugmyndir sínar. Kosti og galla. Sú umræða er mikilvæg.“

Nafi segir einnig mikilvægt að virkja leiðtoga til að taka þátt í umræðunni; trúarleiðtoga, pólitíska leiðtoga og leiðtoga í ættbálkum. „Við hvetjum þá til að samskipta við fólkið því við viljum að hópurinn komist að þeirri niðurstöðu í sameiningu að limlestingar á kynfærum kvenna hafi engan ávinning í för með sér. Við viljum að allt samfélagið í heild taki sig saman og hætti þessu.“

Nafi segir þetta kosta mikla samfélagsvinnu, en einnig hefur verið unnið í samstarfi við fjölmiðla og samfélagsmiðla. „Það er svo mikilvægt að raddir þeirra sem hafa skipt um skoðun og vilja hætta þessu fái að heyrast sem víðast. Það þýðir ekki að við séum að ráðast á ákveðna menningu og hefðir. Samfélögum er velkomið að halda í sína menningu án þessara limlestinga.“

Fleiri vísbendingar um limlestingar víðar

Nafi bendir á að baráttan geti verið snúin að því að leyti að sömu inngrip virki ekki fyrir öll samfélög. Það sem virkar á einum stað virkar kannski alls ekki á öðrum stöðum. Þess vegna þurfi að byggja upp getu frjálsra félagasamtaka á svæðunum til að takast á við verkefnið.

Þá er einnig mikilvægt að læknar og ljósmæður fái fræðslu um limlestingar á kynfærum kvenna og hvaða afleiðingar þær geta haft, meðal annars á meðgöngu og í fæðingu. „Venjulega er þetta ekki hluti af námsefninu og mikill fjöldi lækna lýkur námi án þess að hafa lært eitthvað um limlestingar á kynfærum kvenna. Við viljum breyta þessu. Við viljum að heilbrigðisstarfsfólk sé meðvitaðra um slíkar limlestingar og að þær séu ólöglegar. Við viljum að þetta sé rætt við konur sem leita á heilbrigðisstofnanir, meðal annars vegna barneigna.“

Nafi segir limlestingar á kynfærum kvenna vandamál sem snerti allan heiminn, ekki bara þau samfélög þar sem þær eru stundaðar. „Það eru æ fleiri vísbendingar um að þessar limlestingar eigi sér stað víðar en í Afríkulöndum, eins og nokkrum Asíulöndum og jafnvel Evrópu. Svo höfum við auðvitað innflytjendur víða frá þessum löndum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum og þessar hefðir fylgja þeim gjarnan. Fyrir þeim er þetta eðlilegt og hluti af þeirra sjálfsmynd. Þetta er auðvitað ekki leyft í þeim löndum svo það verða árekstrar.”

Hún segir það líka koma upp að heilbrigðisstarfsmenn í vestrænum löndum fái til sín konur sem hafi verið limlestar og þeir átti sig ekki því hvað hafi komið fyrir. Þeir sjá bara afmynduð sköp. Þess vegna sé mikilvægt að fræða heilbrigðisstarfsfólk á vesturlöndum um hvernig bregðast eigi við.

Skortur á fjármagni hægir á vinnunni 

En hve langan tíma heldur Nafi að það taki að útrýma slíkum limlestingum?

„Í sumum löndum mun það ekki taka meira en fjögur til fimm ár, en í öðrum tekur það lengri tíma vegna ýmissa þátta. Í sumum samfélögum hefur þessu verið alveg hætt. Jafnvel þar sem nánast allar konur voru látnar gangast undir hnífinn.“ Sómalía er til að mynda eitt af erfiðu löndunum vegna pólitísks ástands, sérstaklega Mogadishu-svæðið.

„Okkur gekk til dæmis mjög vel í Jemen en svo braust út stríð þannig við urðum nánast að stöðva verkefnið þar. Við höfum þó verið að byrja hægt og rólega aftur. Við þurfum að aðlagast ástandinu. Það eru breytingar að eiga sér stað en við þurfum að hraða þeim.”

Nafi segir skort á fjármagni helstu ástæðuna fyrir því að svo hægt gangi að útrýma þessum limlestingum. Hún tekur sem dæmi hve vel hafi gengið í baráttunni gegn alnæmi, en þar hafi miklu fjármagni verið varið í verkefnið. Einnig í að sporna við barnadauða, þar sem einnig góður árangur hefur náðst. „Þess vegna er mikilvægt að UNICEF og UNFPA vinni saman. Við stillum saman strengi okkar og vinnum sterkar saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert