Vilja senda rohingja á Fljótandi eyjuna

Þúsundir rohingja hafast nú við á einskismannslandi milli Búrma og ...
Þúsundir rohingja hafast nú við á einskismannslandi milli Búrma og Bangladess. AFP

Yfirvöld í Bangladess vinna nú af krafti að því að gera óbyggða eyju á Bengalflóa, sem myndaðist úr árburði, að heimili fyrir 100.000 rohingja sem flúið hafa herferð hersins í Búrma (Myanmar).

Sheikh Hasina, forsætisráðherra Bangladess, segir að einungis sé um „tímabundna aðgerð“ að ræða sem ætlað sé að létta á mannfjöldanum í flóttamannabúðunum í nágrenni Cox Bazar. Þar hafast nú við tæplega 700.000 rohingjar sem flúið hafa frá Rakhine-héraði í Búrma frá því í ágúst í fyrra.

Reuters-fréttastofan hefur hins vegar eftir einum ráðgjafa forsætisráðherrans að þeir rohingjar sem setjist að á eyjunni fái ekki að yfirgefa hana á ný, nema til að fara aftur til Búrma eða fái hæli í öðru landi.

Rohingja-drengur klífur hér tröppur í Hakimpara-flóttamannabúðunum sem eru í Ukhia-héraðinu ...
Rohingja-drengur klífur hér tröppur í Hakimpara-flóttamannabúðunum sem eru í Ukhia-héraðinu í Bangladess. Hundruð þúsunda rohingja hafa flúið frá Búrma til Bangladess frá því í ágúst í fyrra. AFP

Ekki fangabúðir, en samt takmarkanir

Þetta eru ekki fangabúðir, en það kunna að verða einhverjar takmarkanir,“ sagði ráðgjafinn H.T. Imam og bætti við að 40-50 vopnaðir lögreglumenn verði á eyjunni.

Breskir og kínverskir verkfræðingar aðstoða nú við að gera eyjuna klára til að taka á móti flóttafólkinu áður en monsúntímabilið hefst, en því fylgja oft á tíðum mikil flóð sem geta gert ástandið í búðunum enn verra.

Yfirmaður flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna sagði í yfirlýsingu að samtökin leggi áherslu á að allar áætlanir um fólksflutninga verði að byggja á upplýstri ákvörðun og að þeir sem þangað flytji fari þangað sjálfviljugir.

Mannréttindasamtök hafa frá 2015 gagnrýnt hugmyndir um að flytja rohingja á eyjuna. Þá strax lýstu þau yfir áhyggjum yfir að eyjan sem er byggð upp af árframburði sé ótrygg til búsetu vegna fellibylja sem oft fari þar um. Þær þúsundir sem þar eiga að búa muni heldur ekki geta framfleytt sér á eyjunni.

Aukinn kraftur hefur engu að síður verið settur í það á undanförnum mánuðum að gera eyjuna, sem fengið hefur nafnið Bhasan Char sem þýðir Fljótandi eyjan, íbúðarhæfa. Þegar fréttamaður Reuters var þar á ferð fyrir ári voru hvorki vegir, byggingar né fólk á staðnum. Um miðjan febrúar á þessu ári voru hins vegar hundruð verkamanna þar að störfum og segir Reuters gervitunglamyndir nú benda til þess að þyrlupallur hafi risið á eyjunni.

Flóð vegna monsúnvinda tíð

Bhasan Char er ekki nema 20 ára gömul og varð til úr árframburði. Hún er um 30 km fyrir utan Bangladess og er bæði flöt og skiptir reglulega um lögun, enda flæðir oft yfir hana á monsúntímabilinu sem stendur yfir frá júní og fram í september.

Þá eru sjóræningjar sagðir tíðir gestir á hafsvæðinu fyrir utan, þar sem þeir ræna fiskimönnum og krefjast lausnargjalds fyrir að láta þá lausa.

Teikningar fyrir eyjuna sýna múrsteinsbyggingar sem standa á stöplum, með járnþaki sem sólarrafhlöðu hefur verið komið fyrir á. Gert er ráð fyrir 1.440 byggingum og á hver þeirra að geta hýst 16 fjölskyldur.

Það er kínverska verktakafyrirtækið Sinohydro, sem hvað þekktast er fyrir þriggja gljúfra stífluna í Kína, sem vinnur að verkinu sem metið er á um 280 milljón dollara. Breska verkfræðifyrirtækið HR Wallingford staðfestir að það veiti ráðgjöf varðandi stöðugleika strandlengjunnar og flóðavarnir.

Omar Waraich, framkvæmdastjóri Amnesty í Suður-Asíu, segir engin mannréttindasamtök telja þetta vera góða hugmynd.

„Þetta er árburðareyja sem aðeins varð til nýlega,“ sagði hann.

Skilja ekki staðfræði Bangladess

Íbúar á nágrannaeyjunni Sandwip, sem er stærri og liggur ekki jafnafskekkt, segja monsúnvinda reglulega kosta fólk lífið, eyðileggja heimili og loka á tengsl við meginlandið.

Kabir Bin Anwar, sem starfar hjá forsætisráðuneyti Bangladess, segir mannréttindasamtökin hins vegar hafa á röngu að standa. Þau skilji ekki staðfræði Bangladess.

Stjórnvöld væru að reisa skýli á eyjunni sem geti staðist fellibyli og fólkið geti veitt sér til matar og haldið kýr eða vísunda á eyjunni.

Þeir Bangladessbúar sem búa á nærliggjandi eyjum eru þó gagnrýnir í garð þessara áætlana stjórnvalda og telja ríkisstjórninni fyrst bera að hjálpa þeim landsmönnum sem rýrnun strandlengjunnar rænir heimili sínu ár hvert.

Þá eru heldur ekki allir rohingjar hrifnir af hugmyndinni um að flytja enn fjær Búrma, sem margir þeirra hafa kallað heimili sitt kynslóðum saman.

Jahid Hussain, sem býr í Chakmakul-flóttamannabúðum í Bangladess, sagðist hafa flúið Búrma til að bjarga lífi sínu og að hann vilji ekki hætta því á ný með því að flytja til Bhasan Char. „Þá vil ég frekar deyja hérna,“ sagði hann.

mbl.is
HARMONIKKUHURÐIR SPARA MIKIÐ PLÁSS
Margar viðartegundir og litir, smíðað eftir máli. Verð frá kr. 13.900,- Sími 61...
NUDD- LÁTTU DEKRA VIÐ ÞIG.
HEIT OLIA OG STEINAR- RÓAR HUGANN OG GEFUR BÆTTA LÍÐAN. tÍMAPANTANIR SIMI 8...
SUMARHÚS- GESTAHÚS- BREYTINGAR
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
Bolir o.fl.
Tískuverslunin Smart Grímsbæ/Bústaðavegi Bolir kr. 3.990 Peysa kr. 4.990 Buxur k...