Ríkisstjóri sakaður um hefndarklám

Mynd sem lögreglan tók af Eric Greitens eftir að hann …
Mynd sem lögreglan tók af Eric Greitens eftir að hann var handtekinn. Ljósmynd/Lögreglan í St. Louis

Eric Greitens, ríkisstjóri Missouri, hefur verið ákærður fyrir að ráðast inn á heimili konu sem sakar hann um að hafa bundið hana, tekið af henni nektarmyndir og hótað að birtar myndirnar ef hún segði opinberlega frá framhjáhaldi þeirra.

Greitens, sem er repúblikani, var handtekinn á fimmtudag. Hann segist hafa gert mistök en kveðst ekki hafa framið neinn glæp. 

Í síðasta mánuði viðurkenndi ríkisstjórinn, sem er kvæntur tveggja barna faðir, að hann hefði átt í ástarsambandi með hárgreiðslukonu sinni.

Andstæðingar Greitens hafa sakað hann um hefndarklám og fjárkúgun, að því er segir á vef BBC.

Fram kemur í ákærunni að Greitens hafi tekið mynd af konunni, sem ekki hefur verið upplýst hver er, sem sýndi hana nakta og án hennar samþykkis. Þá er því haldið fram að hann hafi sent myndina áfram þannig að hægt sé að nálgast hana í tölvum. 

Saksóknarinn í St. Louis segir að opinberir embættismenn verði dregnir til ábyrgðar með sama hætti og aðrir íbúar ríkisins. Greitens sakar saksóknarann um pólitískar árásir og segist treysta því að málið verði leiðrétt. 

Margir þingmenn í Missouri hafa hvatt Greitens til að segja af sér þegar í stað. 

Greitens, sem er fyrrverandi sérsveitarmaður, tók við embættinu árið 2016. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert