Enn óttast um líf 111 nígerískra stúlkna

Skólinn þar sem 111 stúlkum var rænt.
Skólinn þar sem 111 stúlkum var rænt. AFP

Enn er ekki vitað hvar 111 nígerískar stúlkur eru niðurkomnar eftir að hryðjuverkasamtökin Boko Haram réðust inn í skólann og rændu þeim í síðustu viku. Skólinn mun ekki opna á ný og kallað er eftir aukinni öryggisgæslu.    

„Það er ekki fýsilegt að opna skólann að nýju eins og staðan er núna,“ segir Mohammed Lamin yfirmaður menntunarmála í Yobe-ríki í Nígeríu. Hinar stúlkurnar eru í miklu áfalli og eru ekki tilbúnar hefja skólagöngu að nýju. 

Ótt­ast er að annað mál í lík­ingu við það, þegar 276 stúlkum var rænt í Chi­bok árið 2014, sé komið upp. Enn er ekki vitað hvar 100 þeirra eru niðurkomnar.

Ríkisstjórnin hefur fyrirskipað að öryggisgæsla verði hert í öllum skólum í Yobe. Á föstudaginn sögðu foreldrar og fleiri íbúar í borginni Dapchi að skólinn hafi verið berskjaldaður því færri hermenn hefðu verið við gæslu síðustu vikur. Foreldrar annarra stúlkna neita að senda þær í skólann fyrr en öryggið verði bætt.  

Ríkisstjóri Yobe, Ibrahim Gaidam, viðurkenndi að öryggisgæslan hafi minnkað og sagði jafnframt að þrátt fyrir að starfsfólk hersins væri að gera sitt besta þyrfti að herða öryggisgæslu enn frekar.    

mbl.is