Löfven slapp ómeiddur úr óhappi

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, slapp ómeiddur úr umferðaróhappi í dag þegar bifreið hans fór útaf og valt á hraðbrautinni norður af Stokkhólmi. Blindbylur var þegar óhappið varð.

Talsmaður sænsku öryggislögreglunnar, Säpo, Karl Melin, segir að einhverjar skemmdir hafi orðið á bifreiðinni en enginn slasast þegar hún valt og hafnaði á handriði. 

Löfven var á leiðinni til Uppsala, um 70 km norður af höfuðborginni, en þar ætlaði hann að flytja erindi á Akademiska sjúkrahúsinu. Afar slæm færð er á þessum slóðum vegna mikillar snjókomu í nótt og morgun. Fyrr í morgun lentu um 20 bílar í árekstri þar skammt frá og slösuðust nokkrir lítillega í árekstrinum.

DN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert