N-Kórea útvegar búnað í efnavopn

Sýrlenskur drengur gefur litlu barni súrefni á sjúkrahúsi í Sýrlandi …
Sýrlenskur drengur gefur litlu barni súrefni á sjúkrahúsi í Sýrlandi í janúar eftir að efnavopnum var beitt á Ghouta. AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa verið að senda búnað til Sýrlands sem hægt er að nota við framleiðslu á efnavopnum. Þetta kemur fram í frétt New York Times og vísar blaðið í heimildir innan Sameinuðu þjóðanna.

Búnaður eins og sýruþolnar flísar, lokur og pípur hefur verið sendur frá Norður-Kóreu til Sýrlands og eins hafa sérfræðingar í gerð eldflauga frá Norður-Kóreu sést í vopnaverksmiðjum í Sýrlandi. Þetta kemur fram í óbirtri skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem New York Times hefur undir höndum.

AFP

Nýlegar fregnir herma að klórgas hafi verið notað af Sýrlandsher í árásum um helgina. Stjórnvöld í Sýrlandi neita því að svo sé en þau hafa alltaf neitað því að hafa beitt efnavopnum í stríðinu gegn stjórnarandstæðingum í landinu. 

Viðskiptabann ríkir gagnvart Norður-Kóreu vegna kjarnorkuvopnatilrauna þar í landi.

Fleiri bandarískir fjölmiðlar fjalla um skýrsluna, þar á meðal Wall Street Journal og Washington Post.

Í WSJ kemur fram að fimm sendingar hafi farið til Sýrlands í gegnum kínverskt flutningafyrirtæki undir lok árs 2016 og í byrjun árs 2017 en talið er að sendingarnar séu mun fleiri á lengra tímabili.

Í fréttinni kemur fram að sýrlensk ríkisstofnun hafi greitt Norður-Kóreu fyrir búnaðinn í gegnum nokkur skúffufyrirtæki.

Talið er að efnavopnum hafi verið beitt á íbúa Douma …
Talið er að efnavopnum hafi verið beitt á íbúa Douma í Austur-Ghouta 22. janúar. AFP

Talsmaður Sameinuðu þjóðanna, Stéphane Dujarric, upplýsir ekki við NYT hvenær skýrslan verður birt en segir að skilaboðin sem þar komi fram séu að öll aðildarríki eigi og beri ábyrgð á því að viðskiptaþvinganir séu virtar. 

Ríkisstjórn Sýrlands á að hafa sagt við nefnd SÞ sem vann skýrsluna að þeir íbúar Norður-Kóreu sem væru staddir í Sýrlandi væru allir íþróttamenn og íþróttaþjálfarar. Sýrland skrifaði undir kjarnorkuvopnasamning SÞ á sínum tíma og að öllum efnavopnabirgðum landsins hafi verið eytt árið 2013 eftir að hundruð létust í sarín-gas árás í Ghouta. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert