Vilja breyta byssulöggjöfinni

Marjory Stoneman Douglas menntaskólinn í Parkland.
Marjory Stoneman Douglas menntaskólinn í Parkland. AFP

Þingmenn í Flórída hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingar á byssulöggjöf ríkisins en tvær vikur eru síðan ungur maður skaut 17 til bana í framhaldsskóla í ríkinu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ekki verði heimilt að kaupa byssur fyrr en við 21 árs aldur en núgildandi lög í Flórída miðast við 18 ár. Jafnframt gerir frumvarpið ráð fyrir því að auðveldara verði að taka vopn af fólki sem glímir við geðræn veikindi. 

Rick Scott ríkisstjóri ásamt Andy Pollack en dóttir hans,Meadow Pollack, …
Rick Scott ríkisstjóri ásamt Andy Pollack en dóttir hans,Meadow Pollack, 18 ára, lést í árásinni og Ryan Petty en dóttir hans, Alaina Petty,14 ára, lést í árásinni. AFP

Jafnframt hefur verið lagt fram frumvarp um að vígbúa starfsfólk skóla, þar á meðal kennara líkt og Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur lagt til. Ríkisstjórinn í Flórída, Rick Scott, hefur lýst því yfir að hann sé andsnúinn hugmyndinni. 

Marjory Stoneman Douglas menntaskólinn var opnaður að nýju í dag og taka vopnaðir verðir og sorgarráðgjafar á móti ungmennunum í Parkland í dag. 

AFP

„Vanalega tek ég fagnandi á móti krökkunum,“ segir Ernest Rospierski, kennari við skólann í samtali við BBC. En í dag, klukkan 8:40 að staðartíma, klukkan 13:40 að íslenskum tíma, mun hann segja þeim hvað það gleðji hann að þau og hann hafi heilsu til þess að vera þarna í dag.

Bygging 12, þar sem skotárásin var framin verður áfram lokuð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert