10 látnir af völdum stormsins Emmu

Íbúar í Glasgow eru ekki vanir snjóstormi líkt og gengur …
Íbúar í Glasgow eru ekki vanir snjóstormi líkt og gengur nú yfir landið. AFP

Tíu hafa látið lífið af völdum stormsins Emmu sem gengur nú yfir Bretland. Stormurinn er hluti af kuldakastinu sem hefur gengið yfir Evrópu síðasta daga.

Rauð viðvörun er í gildi á Suðvestur-Englandi og í Suður-Wales og er viðvörunin sú hæsta sem gefin er út í tengslum við veðurfar og merkir að lífshættulegar aðstæður geti skapast vegna veðurs. Viðvörun af þessu tagi er mjög fátíð á Bretlandi.

Frétt mbl.is: Hæsta mögulega viðvörun gefin út

Herinn hefur verið kallaður út til að létta undir með störfum lögreglu sem felast meðal annars í því að greiða úr umferðaröngþveiti sem myndast hefur á mörgum hraðbrautum vegna hálku og ísingar. Allt að 50 sentimetra snjódýpt hefur mælst þar sem mest hefur snjóað.

Paddington-lestarstöðin var lokuð um tíma í dag vegna ísingar.
Paddington-lestarstöðin var lokuð um tíma í dag vegna ísingar. AFP

Veðrið fer versnandi

Sjö ára stúlka er á meðal hinna látnu. Hún var úti að leika sér í snjónum þegar hún varð fyrir bíl. Ökumaður bílsins missti stjórn á honum í hálku með þeim afleiðingum að bíllinn fór út af veginum og hafnaði á stúlkunni og síðar húsvegg.

Veðurfræðingurinn Sophie Yeomans segir í samtali við The Telegraph að aðstæður eigi mögulega eftir að versna. „Það er meiri snjókoma á leiðinni,“ segir Yeomans.

Samgöngutruflanir hafa farið vaxandi síðustu þrjá daga og tafir hafa orðið á lestarsamgöngum víða í landinu. Þá eru flugvellirnir í Glasgow og Edinborg lokaðir og fjölda fluga sem áttu að fara frá Heathrow og Gatwick hefur verið aflýst.

Miklar raskanir hafa orðið á flug- og lestarsamgöngum vegna stormsins …
Miklar raskanir hafa orðið á flug- og lestarsamgöngum vegna stormsins Emmu. AFP
Það var heldur tómlegt um að litast á þessari lestarstöð …
Það var heldur tómlegt um að litast á þessari lestarstöð í norðurhluta London í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert