Marine Le Pen ákærð

Marine Le Pen.
Marine Le Pen. AFP

Franska stjórnmálakonan Marine Le Pen hefur verið ákærð fyrir hatursorðræðu sem hún lét falla á Twitter. Le Pen er einn af leiðtogum þjóðernisflokksins Front National og var forsetaframbjóðandi flokksins í kosningunum í fyrra.

Le Pen birti árið 2015 mynd­ir á Twitter aðgangi sín­um af voðaverk­um íslamskra hryðju­verka­manna.

Meðal mynda sem Le Pen birti var af banda­ríska blaðamann­in­um James Foley, sem var háls­höggv­inn.

Á sama tíma hefur verið upplýst um að þingkona Republique En Marche, stjórnmálaflokks Emmanuel Macron, hafi fengið sendar líflátshótanir með rasísku ívafi.

Í bréfinu sem sent var á Twitter aðgang hennar segir meðal annars: „Dagar þínir eru taldir. Við ætlum að sjá um þig.“

Í bréfinu er ítrekað talað um afrískan bakgrunn hennar á afar niðrandi hátt. Þingkonan, Laetitia Avia, hefur lagt fram kæru hjá lögreglunni í París. „Ég hef aldrei orðið fyrir slíkri rasískri árás áður og mér hefur aldrei áður verið hótað lífláti. Við getum ekki látið svona gerast,“ segir hún en fjölskylda hennar er ættuð frá Tógó.

Í sjónvarpsviðtali segist hún oft hafa orðið fyrir því í daglegu lífi að rasistar hafi látið alls konar ummæli falla en aldrei áður skriflega né heldur hótað henni lífláti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert