Sudan er sjúkur

Sudan er vaktaður allan sólarhringinn.
Sudan er vaktaður allan sólarhringinn. AFP

„Við höfum mjög miklar áhyggjur af honum, hann er orðinn mjög aldraður nashyrningur og við viljum ekki að hann þjáist,“ segir talsmaður Ol Pejeta-samtakanna. Þar er hann að tala um hinn einstaka Su­dan, síðasta karldýrið í heim­in­um af ann­arri af tveim­ur und­ir­teg­und­um hvíta nas­hyrn­ings­ins. 

Sudan er 45 ára og er orðinn mjög alvarlega veikur. Vegna fágæti síns, hann er jú sá síðasta karldýr sinnar tegundar í heiminum, er hann vaktaður af vopnuðum vörðum allan sólarhringinn í dýrafriðlandinu í Kenía. 

Sudan hefur haldið til í friðlandi Ol Pejeta frá árinu 2009 ásamt tveimur kvendýrum, þeim Fatu og Najin. Þær eru síðustu kvendýrin af þessari nashyrningstegund sem fyrirfinnast í heiminum.

Fimm tegundir nashyrninga finnast í heiminum og þær eru allar í mikilli útrýmingarhættu vegna veiða. Veiðiþjófar ásælast horn þeirra en þau eru seld fólk í Asíu og víðar sem trúir því í einfeldni sinni að efni í þeim auki kyngetu. Slíkt hefur ítrekað verið afsannað. Efnið er það sama og finnst í fingurnöglum.

Aðeins er talið að um 30 þúsund nashyrningar séu samanlagt til í heiminum en áður er talið að milljónir þeirra hafi fundist á sléttum Afríku og í Asíu.

Vonir höfðu staðið til þess að Sudan og annað hvort kvendýrið myndu falla hugi saman og geta af sér afkvæmi. En slíkt hefur því miður ekki orðið að veruleika.

Í fyrra fannst svo sár á einum fæti Sudans sem talið er mega rekja til aldurs hans. Dýralæknum tókst að koma í veg fyrir frekari sýkingu í því. Heilsa hans batnaði til muna og hefur hann verið hress í janúar og allt fram í miðjan febrúar. En þá fannst annað sár og mun dýpra en það fyrra. Hann fær nú meðferð en starfsmenn dýraverndunarsamtakanna eru ekki vissir um að hann muni ná sér að fullu. „Við erum að reyna að gera allt sem við getum fyrir hann,“ segir talsmaður Ol Pejeta í yfirlýsingu sem birt er á vef dýrasíðunnar Dodo.

Þó að ekki hafi tekist að fjölga nashyrningum af tegund Sudans með náttúrulegum hætti eru nú hafnar tilraunir með að fá staðgöngumóður af annarri undirtegund til verksins. 

Sudan á sér aðdáendur víða um heim og vel er fylgst með heilsu hans á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert