Breyttu umræðunni um byssueign

Nemendur mættu í fyrsta sinn í tvær vikur í skólann ...
Nemendur mættu í fyrsta sinn í tvær vikur í skólann í vikunni. AFP

Nemendurnir sem lifðu skotárásina af í Marjory Stoneman Douglas-skólanum í Flórída hafa breytt umræðunni um byssueign í Bandaríkjunum.

Unglingarnir í Marjory Stoneman Douglas-skólanum í Flórída hafa vakið athygli og aðdáun heimsins. Í stað þess að leggjast undir sæng, sem hefði verið skiljanlegt eftir svona mikið áfall, en sautján nemendur skólans voru skotnir til bana af 19 ára byssumanni, fyrrverandi nemanda við skólann, 14. febrúar, ákváðu þeir að berjast. Í þetta skiptið með orðin að vopni, fyrst á samfélagsmiðlum en svo í sjónvarpsþáttum. Skilaboðin eru þau að þetta megi alls ekki gerast aftur og það þurfi að breyta byssulögum; „Aldrei aftur“ er nafn hreyfingarinnar sem varð til í kjölfarið.

Emma González er einn þessara nemenda sem hefur vakið athygli. „Hver einasta manneskja hérna, allt þetta fólk ætti að vera heima hjá sér að syrgja. En í staðinn erum við hérna uppi saman því ef það eina sem ríkisstjórnin og forsetinn geta gert er að hugsa til okkar og biðja fyrir okkur, þýðir það að það er tími fyrir fórnarlömbin að leiða þessa breytingu sem við þurfum,“ sagði González á baráttufundi um síðustu helgi. Hún byrjaði á Twitter eftir skotárásina og er þegar komin með 1,15 milljónir fylgjenda. Samtök byssueigenda í Bandaríkjunum, NRA, eru með rúmlega 600 þúsund fylgjendur.

Baráttan ber árangur

Baráttan er að skila sér. Tveir af stærstu byssusölum landsins, Walmart og Dick’s Sporting Goods, ákváðu á miðvikudag að takmarka byssusölu sína. Verslanirnar ætla að hætta að selja allar tegundir árásarriffla í verslunum sínum og krefjast þess að kaupendur hafi náð 21 árs aldri, óháð lögum. Samkvæmt alríkislögum verður maður að hafa náð 21 árs aldri til að kaupa skammbyssu en frá 18 ára aldri er hægt að kaupa hálfsjálfvirka riffla og fleiri tegundir af byssum.

Walmart sagðist hafa endurskoðað stefnu sína í ljósi nýliðinna atburða og Edvard Stack, forstjóri Dick’s, sagði að nú væri komið nóg. Barátta unga fólksins hefði náð til hans. „Við elskum þessa krakka og baráttu þeirra, nú er komið nóg. Þetta náði til okkar. Við viljum taka afstöðu og fá vonandi fólk til að tala um þetta,“ sagði hann en Dick’s var á undan Walmart með ákvörðun sína. Ákvörðun Walmart hefur líka mikið vægi út af stærð sinni en keðjan selur byssur í um helmingi af 4.000 stórverslunum sínum. Í hverri viku versla um 150 milljónir manna víðs vegar um Bandaríkin í Walmart.

Viðbrögð Trumps

Fyrstu viðbrögð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta voru hins vegar að vopna kennara, sem baráttufólki fannst hlátursefni. Í vikunni skaut síðan kennari af byssu í grunnskóla nálægt Atlanta, reyndar í tómri stofu, en það sýnir að vopnaðir kennarar eru vart lausnin. Trump kom síðan öllum á óvart, ekki síst félögum sínum í Repúblikanaflokknum, þegar hann tilkynnti í beinni útsendingu á miðvikudag að hann styddi breytingar á byssulöggjöf þar sem m.a. yrði skylda að skoða bakgrunn kaupenda betur og leyfilegt yrði að taka byssur tímabundið af einstaklingum sem teljast í áhættuhópi. Þetta er í algjörri andstöðu við hin öflugu samtök byssueigenda í landinu, NRA. Almenningur er í meira mæli á móti þeim núna og endurspegla ákvarðanir fyrirtækja það en á meðal þeirra fyrirtækja sem hafa slitið öll tengsl við samtökin eru bílaleigan Hertz, MetLife-tryggingar og flugfélagið Delta.

Barátta unga fólksins sem lifði af skotárásina er því að skila sér. Því tókst að tala á yfirvegaðan hátt en samt sýna tilfinningar. Það vill ekki bara samúðarkveðjur heldur breytingar og vita að það er hægt að koma í veg fyrir svona skotárásir og láta ekki segja sér neitt annað.

Þau hafa tjáð sig svo vel í kastljósi fjölmiðla að samsærissinnar héldu því fram að González og skólafélagi hennar David Hogg væru leikarar sem fengnir hefðu verið til að afla stuðnings við herta byssulöggjöf meðal almennings.

Áhrif ungmennabóka

Þetta eru krakkar sem hafa alist upp við lestur distópískra ungmennabóka (young adult) þar sem unga fólkið svarar fyrir sig og þarf oftar en ekki að berjast upp á líf og dauða. Rithöfundurinn Patrick S. Tomlinson @stelthygeek skrifaði á skemmtilegan hátt um þennan hóp á Twitter. „Þið fylgdust með kynslóð sem ólst upp við Harry Potter, Hungurleikana og Marvel-myndir, þið tókuð burt von þeirra, störf og framtíðina og studduð svo ýktasta ofur-vondakall sögunnar í embætti forseta og svo eruð þið hissa á að krakkarnir svari fyrir sig?“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag.

Emma González er komin með fleiri fylgjendur á Twitter en ...
Emma González er komin með fleiri fylgjendur á Twitter en samtök byssueigenda í Bandaríkjunum, NRA. AFP
Verslanakeðjan Dick's Sporting Goods hættir að selja árásarriffla vegna baráttu ...
Verslanakeðjan Dick's Sporting Goods hættir að selja árásarriffla vegna baráttu nemendanna. AFP

Bloggað um fréttina

Rafstöðvar DEK 30 KW 400/230 50 HZ Deutz 50 kw
DEK og Deutz rafstöðvar 30 kw og 50 kw ,útvegum allar stærðir. Vinnu rafstöðva...
VÖNDUÐ VEL BÚIN KENNSLUBIFREIÐ
Vönduð, vel búin kennslubifreið Subaru XV 4WD . Akstursmat og endurtökupróf. Gyl...
HRINGSTIGAR _ HRINGSTIGAR
Hringstigar, úti sem inni. Þvermál 120, 130, 140, 150, 160, 170 cm og sérsmíði í...
Lincoln Capri Landau árg. 1957
Bíllinn er lítið ekinn og aðeins tveir eigendur frá upphafi í USA og einn hér he...