Plastlaus gangur í stórmarkaði

Ekkert plast er utan um fjölda matvæla í einum gangi …
Ekkert plast er utan um fjölda matvæla í einum gangi verslunar Ekoplaza. Ljósmynd/Ekoplaza

Hollendingar eru líklega þeir fyrstu í heiminum til að opna sérstakan gang eða deild í hefðbundnum stórmarkaði þar sem ekkert plast er að finna. Á þessum gangi má finna 700 vörutegundir og er engri þeirra pakkað í plast.

Framtak verslunarkeðjunnar Ekoplaza hefur vakið mikla athygli og þrýsta Bretar nú á að slíkt verði einnig í boði í stórverslunum þar. 

Á hinum plastlausa gangi má finna vörur á borð við kjöt, hrísgrjón, mjólkurvörur, súkkulaði, morgunkorn, ávexti, grænmeti og fleira. 

Umhverfisverndarsamtökin A Plastic Planet fagna þessum áfanga en þau hafa barist fyrir plastlausum verslunum um hríð. Stofnandi samtakanna, Sian Sutherland, hvetur breska stórmarkaði til að feta í þessi fótspor.

„Áratugum saman hefur neytendum verið seld sú lygi að við getum ekki án plasts verið þegar kemur að mat og drykk. Verslunargangur þar sem ekkert plast er að finna afsannar það,“ segir Sutherland í samtali við Sky-sjónvarpsstöðina. Hún bendir á að plastumbúðir gagnist undir matvæli í aðeins nokkra daga. Þær valdi hins vegar skaða í náttúrunni í aldir.

Í frétt Sky kemur fram að Ekoplaza ætli sér að opna plastlausar deildir í öllum 74 verslunum sínum áður en árið er úti. 

„Við vitum að kúnnar okkur eru dauðleiðir á því að vörur séu pakkaðar í plast og aftur plast. Plastlausar deildir eru leið til að prófa umbúðir sem brotna niður í náttúrunni,“ segir Erik Does, framkvæmdastjóri Ekoplaza. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert