Yfir 100 drepnir frá því í desember

Rodrigo Duterte forseti Filippseyja hefur gripið til harðra aðgerða gegn …
Rodrigo Duterte forseti Filippseyja hefur gripið til harðra aðgerða gegn fíkniefnaneytendum og -sölum í landinu. AFP

Yfir hundrað manns sem grunaðir eru í tengslum við fíkniefnamál hafa verið drepnir á Filippseyjum frá því að forseti landsins, Rodrigo Duterte, fyrirskipaði lögreglu að hefja að nýju stríð hans gegn fíkniefnum.

Duterte komst til valda árið 2016 en helsta kosningamál hans var að uppræta fíkniefnavandann. Frá því er talið að um 12 þúsund manns hafi verið drepnir í aðgerðum lögreglu og hersins.

Lögreglustjórinn John Bulalacao staðfestir að frá 5. desember í fyrra hafi 102 verið drepnir af lögreglu í tengslum við málið. 

Í október í fyrra tilkynnti forsetinn að sérstök deild tæki við aðgerðum í tengslum við fíkniefnastríðið af almennri lögreglu. Var það gert í kjölfar sjaldgæfra fjöldamótmæla í landinu.

Duterte ítrekaði á þeim tíma að fíkniefnadeildin með sína 2.000 starfsmenn gæti ekki ein og sér staðið í aðgerðum. Að lokum fór það þannig að í desember ákvað hann að blanda almennri lögreglu aftur í málið.

Yfirvöld á Filippseyjum segja að lögreglan hafi drepið 4.021 í fíkniefnastríðinu en mannréttindasamtök, sem fylgst hafa grannt með þróun mála, segja töluna mun hærri eða um 12 þúsund.

Saksóknari við alþjóðlega stríðsglæpadómstólinn hefur hafið rannsókn á því hvort að glæpir gegn mannúð fari fram í landinu af hálfu stjórnvalda þar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert