Vopnasalar verða að taka ábyrgð

Hassan Rouhani forseti Írans.
Hassan Rouhani forseti Írans. AFP

Lönd sem selja vopn til Sádi-Arabíu og þeirra bandamenn verða að svara fyrir þá „stríðsglæpi“ sem eru að eiga sér stað í Jemen, sagði Hassan Rouhani, forseti Írans, við Emmanuel Macron Frakklandsforseta í dag. Forsetarnir ræddust við í síma vegna átakanna í Sýrlandi og í Jemen. 

„Í Jemen erum við að verða vitni að stríðsglæpum og lönd sem útvega Sádi-Aröbum og hernaðarbandalagi þeirra vopn verða að svara fyrir það,“ sagði Rouhani við Macron að því er fram kemur á heimasíðu forsetaembættisins. 

Utanríkisráðherra Frakklands er nú á leið til Teheran þar sem hann mun ræða við stjórnvöld, m.a. Rouhani.

Frakkar eru einir stærstu vopnaútflytjendur til Sádi-Arabíu í heiminum. Sádi-Arabar hafa gert árásir í Jemen nær linnulaust frá árinu 2015. Árásunum er beint gegn hútum, vopnuðum hópi manna úr norðurhluta landsins sem hefur sölsað undir sig landsvæði síðustu ár, m.a. sjálfa höfuðborgina Sanaa. 

Macron og Rouhani ræddu einnig um stríðið í Sýrlandi og voru sammála um að koma þyrfti á friði sem fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert