Ætlar ekki að vera samstarfsfús við Mueller

Donald Trump Bandaríkjaforseti. Sam Numberg segir FBI menn m.a. hafa …
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Sam Numberg segir FBI menn m.a. hafa spurt sig hvort að hann hafi einhvern tímann heyrt rússnesku talaða í Trump Tower. AFP

Fyrrverandi aðstoðarmaður Donald Trumps Bandaríkjaforseta segist ekki ætla sér að vera samstarfsfús við Robert Mueller, sérstakan saksóknara bandarísku alríkislögreglunnar FBI á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum.

Sam Nunberg, sem gekk til liðs við framboð Trump snemma í kosningabaráttunni segist munu neita verði honum stefnt. „Ég held að það væri virkilega fyndið ákveði þeir að handtaka mig af því að ég vil ekki eyða 80 klukkustundum í að fara yfir tölvupósta,“ sagði Nunberg við bandaríska fjölmiðla.

Þá kvaðst Nunberg halda að teymi Muelller telji sig hafa eitthvað á Trump, en rannsókn Muellers tekur m.a. til þess hvort að tengsl hafi verið milli framboðs Trumps og ráðamanna í Rússlandi sem og hvort að Hvíta húsið hafi reynt að hindra rannsókn á málinu með einhverjum hætti.

Sarah Sanders, talsmaður Hvíta hússins, vildi ekki tjá sig um málið í samtali við BBC.  

Nunber hafði áður sagt í viðtölum við CNN og MSNBC að hann hafi fundað með teymi Muellers um helgina og að fundirnir hafi staðið yfir í fimm og hálfa tíma. Hann væru nú búinn að fá nóg af spurningum rannsakendanna.

Þeir hafi m.a. spurt hann hvort að hann hafi einhvern tímann heyrt rússnesku talaða í Trump Tower. „Mig grunar að þá gruni eitthvað um hann [Trump],“ sagði Nunberg við CNN.  

„Það getur vel verið að Trump hafi gert eitthvað með Rússum í kringum kosningarnar, ef svo er þá veit ég ekkert um það.“

Hann hafnaði því hins vegar alfarið að um einhvers konar samstarf framboðs Trumps og Rússa hafi verið að ræða til hjálpa Trump að fara með sigur af hólmi í kosningunum og sagði slíkar fullyrðingar vera „fullkomlega fáránlegar“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert