Kvalirnar eru ólýsanlegar

Barni veitt læknisaðstoð í Ghouta í gær.
Barni veitt læknisaðstoð í Ghouta í gær. AFP

Í nótt dóu að minnsta kosti 14 almennir borgarar í árásum á Ghouta í Sýrlandi. Flestir dóu af völdum áverka sem þeir hlutu eftir að stjórnarherinn varpaði járntunnum fullum af nöglum, olíu og öðrum skaðlegum efnum á vistaverur íbúana. Kvalirnar eru ólýsanlegar segja þeir sem lifa af slíkar árásir. Alls hafa 709 íbúar í Austur-Ghouta verið drepnir á rúmum tveimur vikum, þar af 166 börn. 

faðir syrgir son sinn í Douma.
faðir syrgir son sinn í Douma. AFP

Samkvæmt upplýsingum frá  Syrian Observatory for Human Rights var tunnusprengjum meðal annars varpað á bæinn Hammuriyeh í nótt og þar létust tíu manns. 

Líkt og skýrslur Am­nesty International sýna hafa herþotur ít­rekað varpað tunnu­sprengj­um, það eru tunn­ur und­ir olíu, bens­ín­tankar eða gasstrokkar fylltir af eld­fimu efni og járn­flís­um, á íbúa Sýrlands á þeim sjö árum sem liðin eru frá því stríðið hófst.

Ekki óhætt fyrir hjálparstarfsmenn að fara inn á svæðið

Yfirmaður sýrlensku mannúðarsamtakanna sem eru með höfuðstöðvar í Bretlandi, Rami Abdel Rahman, segir að árásirnar hafi verið gerðar af stjórnarhernum og Rússum í nótt á sama tíma og bílalest á vegum Sameinuðu þjóðanna bíður eftir því að komast með hjálpargögn inn á svæðið. Ekki þykir óhætt fyrir hjálparstarfsmenn að fara þangað en þar reyna skelfingu lostnir og hungraðir íbúar að fela sig í kjöllurum á meðan sprengjuregnið dynur á þeim.

AFP

Starfsmenn mannúðarmála hjá SÞ segja að stjórnvöld í Sýrlandi hafi ekki enn veitt heimild fyrir því að fara með 40 vöruflutningabíla fulla af matvælum og öðrum hjálpargögnum til bæjarins Douma þrátt fyrir að meira en vika sé síðan öryggisráðið ályktaði um vopnahlé. 

UPPFÆRT KLUKKAN 10:10

Fréttir voru að berast af bílalest með hjálpargögn til íbúa Austur-Ghouta sé lögð af stað inn á svæðið. Þetta kemur fram í Twitter-fræslu yfirmanns alþjóða Rauða krossins í Miðausturlöndum, Robert Mardini. 

Búa við bardaga, hungur og dauða

Um 400 þúsund íbúar eru enn á svæðinu og í stað þess að fá neyðaraðstoð þurfa íbúarnir að búa við bardaga, dauða og hungur á sama tíma og sjúkrahús eru sprengd af stjórnarhernum. 

Neemat Mohsen, sem stýrir skrifstofu kvenna í bænum Saqba í Austur-Ghouta, segir að yfir 350 manns búi neyðarskýlum þar án rennandi vatns og rafmagns.

„Í götunni okkar eru aðeins þrír kjallarar á rúmlega 500 metra leið. Þeir þurfa að hýsa allar fjölskyldurnar í götunni. Okkur líður eins og fangelsið sé að minnka. Við bjuggum fyrst við umsátur á stóru svæði sem nefnist Austur-Ghouta. En nú erum við lokuð inni í skýlum sem minna á grafhýsi,“ segir Mohsen. „Við búum við raunverulegan hrylling allan sólarhringinn.“

Sýrlenskur hermaður fagnar í Ghouta.
Sýrlenskur hermaður fagnar í Ghouta. AFP

Þrátt fyrir þetta ætlar forseti Sýrlands, Bashar al-Assads, ekki að draga úr árásum enda vilji flestir íbúar Austur-Ghouta losna undan hryðjuverkamönnunum. Því verði aðgerðirnar að halda áfram sagði hann í sjónvarpsávarpi. Íbúarnir vilja ekki fara á brott til svæða eins og Idlib enda eiga þeir von á því að ástandið sé litlu skárra þar vegna loftárása stjórnarhersins. Ýmsir þeirra sem eru núna í Austur-Ghouta koma einmitt frá Aleppo en voru fluttir þaðan á sínum tíma í „öruggt skjól“. Stjórnarherinn ræður nú yfir þriðjungi svæðisins. 

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, og framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, ræddu málefni Sýrlands í síma um helgina og lýstu báðir yfir alvarlegum áhyggjum af íbúum á svæðinu. En samt heldur sprengjuregnið áfram.

Liðsmenn í sýrlenska stjórnarhernum.
Liðsmenn í sýrlenska stjórnarhernum. AFP

Macron segir að hjálpargögn SÞ verði tafarlaust að komast inn á svæðið svo hægt sé að veita íbúum læknishjálp og matvælaaðstoð. Hann ræddi við forsætisráðherra Írans, Hassan Rouhani, í gær og hvatti hann til þess að beita stjórnvöld í Sýrlandi þrýstingi um að stöðva árásirnar og heimila flutning mannúðargagna inn á svæðið. Íran er einn helsti bandamaður forseta Sýrlands.

Hafa gefist upp á aðgerðaleysi heimsins

En frá Austur-Ghouta heyrast vein íbúanna, lágvært vein því fólk er almennt örmagna. Fólk hefur líka gefist upp á því að reyna að fá heiminn til þess að bregðast við. 

Þúsundir halda til í kjöllurum og neyðarskýlum neðanjarðar, þar felur fólk sig fyrir hryllingnum sem rignir niður úr flugvélum Sýrlandshers. Regni sem virðist aldrei ætla að slota. 

Börn sem félagar í Hvítu hjálmunum björguðu í bænum Beit …
Börn sem félagar í Hvítu hjálmunum björguðu í bænum Beit Sawa í gær. AFP

Associated Press-fréttastofan hefur rætt við marga íbúa sem hafast við neðanjarðar. Þeir lýsa rakanum og sóðaskapnum sem fylgir því að búa grafinn niður í kjallara án vatns og rafmagns. Hundruð halda til í rými sem er kannski nægjanlegt til þess að hýsa tugi.

Að utan berst hávaði allan sólarhringinn, sprengjugnýr og skothvellir. Þeir neita að senda fréttamönnum myndir frá íverustöðum sínum enda óttast þeir að með því komi þeir upp um hvar þeir eru enda virðast loftárásirnar einkum beinast að íbúum í neyðarskýlum.

Hvert á ég að fara?

Þrítug kona sem er kennari og móðir tæplega tveggja ára gamals barns lýsir því hvernig það hafi verið í fyrsta skiptið að finna jörðina fyrir ofan skýlið skjálfa í jarðskjálftanum af loftárásunum. 

„Ég fraus. Ég var í áfalli og vissi ekki hvað ég ætti að gera. Ætti ég að flýja? Hvert? Á ég að bíða? Hvert á ég að fara? Þetta er ólýsanlegt.“

„Þetta snýst ekki um valkosti. Þetta er sá staður sem er næst því að teljast öruggur. En hann er ekki öruggur. Tunnusprengjurnar hafna stundum í skýlunum. Annaðhvort á hurðinni eða inni þar sem margir deyja eða særast,“ segir hún. Líkt og margir aðrir sem AP-fréttastofan hefur rætt við sem vilja alls ekki gefa upp nafn sitt af ótta við hvað verði um þau ef þau skyldu lifa af. 

Frá bænum Beit Sawa.
Frá bænum Beit Sawa. AFP

Hún og flestir þeirra sem AP ræddi við lýsa vonbrigðum yfir þögn heimsins og að enn eitt fjöldamorðið sé framið í landinu án afskipta heimsins. Allir hljóti að gera sér grein fyrir því að ekkert annað bíði hundruða þúsunda íbúa í Ghouta en fara á vergang, annaðhvort í eigin landi eða reyna að komast í skjól erlendis. 

Grænir akrar og blómleg byggð

Fyrir stríð var Ghouta þekkt fyrir græna akra og grænmetisræktun sem nægði fyrir íbúa í höfuðborg landsins og víðar en nú er frjósama Ghouta orðin að lifandi helvíti. 

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum neyddust 15 þúsund manns til að yfirgefa heimili sín í janúar og eru flestir þeirra nú í skýlum og kjöllurum húsa í Ghouta. Ekki er í boði að reyna að yfirgefa svæðið enda hvert ætti fólkið að fara?

Umsátur hefur ríkt í Ghouta frá árinu 2013, í tæp fimm ár, og jafnvel áður voru árásir gerðar á svæðið af hálfu stjórnarhersins. Þar sem uppreisnarmenn hafa komið upp viðamiklu gangakerfi neðanjarðar í Ghouta sem tengja byggingar oft saman reynir herinn að beina spjótum sínum að kjöllurum húsa. Til að mynda voru 18 manns, einkum konur og börn, drepin í einni slíkri árás á kjallara húss í Hazeh. Það tók björgunarmenn tíu daga að ná hinum látnu undan rústunum.

Hér voru áður heimili fólks.
Hér voru áður heimili fólks. AFP

Douma er stærsti bærinn í Ghouta en talið er að um 120 þúsund manns búi þar. Kennarinn sem AP-fréttastofan ræddi við býr þar. Hún óttast um afdrif sín og fjölskyldunnar ef ríkisstjórnin nær yfirráðum að nýju í bænum. En hún óttast einnig uppreisnarmennina og viðbrögð þeirra. 

„Því miður eiga borgararnir sér engan málsvara. Við getum ekki sagt skoðun okkar eða talað fyrir hönd íbúanna. Við getum ekki staðið upp gegn stríðandi fylkingum og sagt: Hvernig gátuð þið látið þetta ganga svona langt?“ segir hún í röð smáskilaboða sem hún sendi með litla drenginn sinn í fanginu.

Hún segir að sennilega hafi verið hægt að gera eitthvað fyrir einhverjum árum. En núna sé ekkert hægt að gera annað en að bíða. Yfir 70 konur eru í þessum kjallara auk fjölda barna. Hún reynir að hemja drenginn sinn sem vill klifra upp stigana og komast út undir ferskt loft. En það myndi líklega kosta hann lífið. Móðir hans veit það enda hefur hún horft á litla stúlku kastast niður tröppurnar vegna skjálftanna af loftárásunum. Hún hefur líka séð barn deyja sem laumaðist út til þess að fá sér ferskt loft. 

Matvælaverð hefur hækkað gríðarlega og börnin fá ekkert annað að borða en ólífur og stundum brauðmola. Stundum, ef heppnin er með þeim, geta þau eldað núðlur. Fólk reynir að laumast til að borða því aðeins brot af þeim sem halda til í kjöllurunum hefur ráð á að kaupa sér mat. 

Þegar sprengjum rignir leikur allt á reiðiskjálfi í kjöllurum sem …
Þegar sprengjum rignir leikur allt á reiðiskjálfi í kjöllurum sem fólk heldur til í. AFP

Sturta fjarlægur munaður

Bassam Abu Bashir, sem er læknir í Sabqa, segir að átakalínurnar séu að færast frá heimabæ hans í útjaðar Ghouta í suðri. Hann segir að áður hafi það tekið um 15 mínútur að fara í matarleit en núna taki slík leit nokkrar klukkustundir enda nánast engan mat að fá.

Bayan Rehan, aðgerðasinni í Douma, segir að helsta undirstaðan í fæðunni sé tómatamauk. Hún þurfti að yfirgefa heimili sitt fyrir rúmri viku þegar sprengja eyðilagði húsið. Fjölskylda hennar er núna í neyðarskýli neðanjarðar en hún er að reyna að veita fólki aðstoð ofanjarðar. „Mig dreymir um að komast í sturtu,“ segir hún og flissar enda hafi hún ekki komist í slíkan munað í þrjár vikur. 

Enda lífshættulegt að láta eftir sér þann munað að fara inn á baðherbergi í húsum bæjarins. Yfirleitt er heldur ekkert rennandi vatn í boði. „Hvers vegna erum við neydd til þess að yfirgefa heimili okkar? Er það ásættanlegt að ríkisstjórnin taki þau af okkur og láti aðra fá þau til þess að búa á? Hvers vegna segja Sameinuðu þjóðirnar ekkert og ekki heldur alþjóðasamfélagið?“ segir ein kona sem fréttamenn AFP ræddu við.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert