Orrustur ógna fornum bæ

Áður fyrr var bærinn Zabid höfuðborg Jemen og síðustu ár hefur hann verið þekktur fyrir merkilegan arkitektúr. Nú berjast íbúarnir fyrir lífi sínu innan fornra virkisveggjanna.  

Zabid er á vesturströnd Jemen og var settur á heimsminjaskrá UNESCO árið 1993 vegna hins aldagamla borgarskipulags. Þar er meðal annars að finna fimmtu elstu mosku heims. 

Nú ber hann merki mikillar vanrækslu og fátæktar og sjö árum eftir að hafa fengið sess á heimsminjaskránni var hann flokkaður sem merkilegt svæði í hættu. Á þeim lista vill enginn vera. 

Stríðið í Jemen hefur staðið í þrjú ár og í því hafa um 10 þúsund manns týnt lífi. Þjóðin er á barmi hungursneyðar og tilveru hins forna bæjar Zabid er ógnað. 

Hin forna borg Zabid er á heimslista UNESCO. Virkisveggir umlykja …
Hin forna borg Zabid er á heimslista UNESCO. Virkisveggir umlykja borgina og á þeim eru fjögur hlið. AFP

Hingað til hafa átökin ekki náð að virkisveggjunum. Í landinu berjast hútar, hópar fólks úr norðri með stuðningi Írana, við stjórnarherinn sem aftur nýtur stuðnings Sádi-Araba og fleiri bandalagsþjóða. 

En nú eru háðar orrustur í hafnarbænum Hodeida í næsta nágrenni Zabid og óttast er að átökin berist þangað. 

Ahmed Hussein Ahmed segir að hús hans hafi skemmst í síðasta mánuði í árásum milli stríðandi fylkinga. Hann óttast um bæði fjölskyldu sína og bæinn sinn. Múrsteinshúsin gefa bænum náttúrulegan blæ og bera fögur við bláan himininn. En nú er útlit fyrir að þessi hús veiti íbúunum lítið skjól fyrir því sem vofir yfir. 

„Húsin okkar eru byggð úr leir héðan af svæðinu,“ segir Ahmed þar sem hann situr við einn gluggann sem skorinn hefur verið út í múrsteinsveggi húss hans. „Ef önnur sprengja fellur þá mun húsið hrynja yfir okkur.“

Frá þrettándu öld og til þeirrar fimmtándu var Zabid höfuðborg Jemen þar til hann missti þá stöðu til borgarinnar Sanaa.

Bærinn var byggður eftir að íslam varð til en arkitektúr hans þykir bera upphafi trúarbragðanna fagurt fitni. Fjögur hlið eru að borginni og steinlagðar þröngar götur liggja frá miðbænum til íbúahverfanna. 

Arkitektúrinn í Zabid ber upphafi íslam fagurt vitni.
Arkitektúrinn í Zabid ber upphafi íslam fagurt vitni. AFP

Hvergi í Jemen eru fleiri moskur miðað við íbúafjölda. Þar er einn fyrsti íslamski háskóli heims og skurðir voru grafnir til að flytja vatn til bæjarbúa. 

Sérfræðingar segja að Zabid þoli ekki fleiri árásir jafnvel þótt að átökin verði sem fyrr aðeins í úthverfum bæjarins. 

„Þetta eru aldagamlar byggingar. Þær þola ekki sprengjuárásir eða titringinn frá eldflaugunum,“ segir Jemeninn Hussein Abdulrahman sem er sérfræðingur í gömlum húsum landsins. „Heimsbyggðin  ætti að leggjast á eitt til að varðveita þetta.“

Í Zabid eru búðirnar, sem eru líkastar litlum köstulum, enn opnar. Bókasafn bæjarins er einnig enn opið fyrir almenningi en það er eins og falinn fjársjóður í kjallara gamallar byggingar. 

Mukhtar Abdulsamad, sem fer fyrir skrifstofu sem hefur það hlutverk að vernda hús Zabid, óttast að stoðir arfleifðar landsins verði fyrr en síðar ónýtar. „Við höfum leitað á náðir alþjóðlegra stofnanna, líka UNESCO, svo verndun Zabid verði sett í forgang,“ segir hann. „Heimsbyggðin á þennan bæ, ekki aðeins Jemenar.“

Íbúar og fulltrúar alþjóðastofnana óttast að herþotur Sáda fari að varpa sprengjum yfir þennan forna bæ því hútar hafa tekið hann á sitt vald. 

Í Zabid er ein elsta moska heims.
Í Zabid er ein elsta moska heims. AFP

 Hafnarbærinn Hodeida sem er í næsta nágrenni Zabid er mikilvæg leið fyrir hjálpargögn inn í landið. Þar hafa bardagar brotist út. Hútar náðu völdum yfir höfninni árið 2014 er þeir lögðu undir sig stór landsvæði í Jemen, m.a. höfuðborgina Sanaa. Stjórnarherinn reynir nú af öllum mætti að ná aftur yfirráðum í Hodeida. 

Sádar taka fullan þátt í því áhlaupi. Þeir settu hafnarbann á Hodeida í nóvember eftir að hútar gerðu eldflaugaárás á Riyadh. Hafnarbannið hefur orðið til þess að gríðarlega erfitt hefur verið að koma hjálpargöngum til landsins en talið er að um 70% þjóðarinnar sé við hungurmörk. Vegna þrýstings Sameinuðu þjóðanna var því aflétt að hluta. 

Þröngar steinlagðar götur bæjarins innan virkisveggjanna.
Þröngar steinlagðar götur bæjarins innan virkisveggjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert