Viljandi sveltir í Búrma

Fjöldi rohingja á leið yfir Naf-ána sem skilur að Búrma …
Fjöldi rohingja á leið yfir Naf-ána sem skilur að Búrma og Bangladess. Myndin er tekin í október eftir að þeir tóku að flýja herferð stjórnarhersins. AFP

Yfirvöld í Búrma hafa haldið þjóðernishreinsunum sínum á rohingjum í Rakhine-ríki áfram að því er mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna segir. Þetta er niðurstaða sendinefndar stofnunarinnar sem rannsakað hefur ástandið.

Sendinefndin komst að því að rohingjar eru vísvitandi sveltir og búa enn við stöðugar ofsóknir. Fyrir hálfu ári hófst grimmileg herferð gegn þeim af hálfu stjórnarhers Búrma sem varð til þess að um 700 þúsund rohingja flúðu yfir til nágrannaríkisins Bangladess. Fólkið hefur lýst morðum, nauðgunum og því að húsin þeirra hafi verið brennd.

Stjórnarherinn segist hins vegar hafa ráðist gegn skæruliðahópum rohingja og neitar því að hafa beint spjótum sínum að almennum borgurum.

„Þjóðernishreinsanir á rohingjum standa enn yfir,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Andrew Gilmour, aðstoðarframkvæmdastjóra mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. „Ég tel okkur ekki geta komist að nokkurri annarri niðurstöðu miðað við það sem við höfum heyrt og séð í Cox'sBazar [flóttamannabúðunum].“

Rohingjar í flóttamannabúðunum Cox's Bazar í Bangladess.
Rohingjar í flóttamannabúðunum Cox's Bazar í Bangladess. AFP

Hann segir að frá því að fjöldaflóttinn átti sér stað hafi herferðin gegn rohingjum farið úr fjöldanauðgunum og aftökum og m.a. í það að svelta rohingjana sem eftir eru í Búrma. 

Stjórnvöld í Bangladess og Búrma hafa gert með sér samkomulag um að senda flóttafólkið aftur til Búrma. Nú hafa hermenn Búrma flykkst að landamærum ríkjanna.

Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna segir það með öllu ómögulegt fyrir rohingja að fara aftur til Rakhine-ríkis í nánustu framtíð. „Stjórnvöld í Búrma eru upptekin af því að segja umheiminum að þau séu tilbúin að taka á móti rohingjunum aftur en á sama tíma er her þeirra enn að þvinga þá til að flýja til Bangladess,“ segir Gilmour.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert