Tekinn af lífi í október en móður tilkynnt nýlega

Kiryl Kazachok.
Kiryl Kazachok. Death Penalty News

Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi hafa tekið dæmdar morðingja af lífi en ríkið er það eina í Evrópu sem beitir dauðarefsingum. Mannréttindasamtökin Viasna greina frá þessu í dag.

Móðir mannsins, Kiryl Kazachok, greindi aðgerðarsinnanum Andrei Poluda frá því að hún hafi nýlega fengið upplýsingar um að sonur hennar hafi verið tekinn af lífi en hann var skotinn til bana í október í fyrra.  

Mannréttindasamtökin Amnesty International sendu frá sér beiðni í janúar til forseta Hvíta-Rússlands, Alexander Lúkashenkó, til þess að hætta að beita dauðarefsingum og vísaði til máls Kazachok.

Kazachok var dauðadrukkinn þegar hann myrti son sinn og dóttur, 17 og 9 ára, í hefndarskyni eftir að eiginkona hans óskaði eftir skilnaði. Hann hringdi í lögreglu og tilkynnti um morðin og henti sér fram af svölum íbúðarinnar en lifði af fallið. Hann var dæmdur til dauða árið 2016 og vildi ekki áfrýja niðurstöðunni.

Í Hvíta-Rússlandi eru fangar teknir af lífi með því að skjóta þá aftan í höfuðið en aftökurnar fara fram með mikilli leynd og eru ekki til neinar opinbera upplýsingar um þær. Ættingjar eru ekki upplýstir um aftökurnar fyrr en miklu seinna og þeir fá ekki lík þess látna afhent.

Samkvæmt upplýsingum frá mannréttindasamtökum eru fimm fjöldamorðingjar á dauðadeild í Hvíta-Rússlandi og eru þeir á aldrinum 24 og 44 ára. Í fyrra voru tveir menn dæmdir til dauða fyrir sex morð sem tengdust svikamyllu tengdu fasteignaviðskiptum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert