Leiðtogar fagna fundi Trumps og Kim

Kim Jong-un ásamt samningamanni Suður-Kóreu, Chung Eui-yong, á fundi í …
Kim Jong-un ásamt samningamanni Suður-Kóreu, Chung Eui-yong, á fundi í byrjun vikunnar. AFP

Leiðtogar Rússlands, Kína, Japans og Suður-Kóreu hafa allir fagnað fyrirhuguðum fundi Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Kims Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. 

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir að fundurinn sé „skref í rétta átt“.

„Við vonum að þessi fundur verið að veruleika,“ sagði Lavrov. „Það er vissulega þörf á því að bæta ástandið á Kóreuskaganum.“

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AFP

Kínverjar hafa einnig lýst yfir ánægju sinni með fundinn og hvetja leiðtogana tvo til að sýna „pólitískt hugrekki“ við fækkun kjarnorkuvopna á Kóreuskaganum.

„Við fögnum þessum jákvæðu skilaboðum frá Bandaríkjunum og Norður-Kóreu um að eiga náið samtal,“ sagði Geng Shugang, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins.

Hann bætti við að kjarnorkumál á Kóreuskaganum þokist nú í rétta átt.

„Við vonum að allir aðilar geti sýnt pólitískt hugrekki með því að taka réttar pólitískar ákvarðanir.“

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu.
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu. AFP

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, gleðst einnig yfir fyrirhuguðum fundi. „Fundurinn í maí verður skráður í sögubækurnar sem mikil tímamót varðandi friðarhorfur á Kóreuskaganum,“ sagði hann.

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. AFP

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, fagnaði fundinum einnig. „Ég er mjög ánægður með breytt viðhorf hjá Norður-Kóreu um að hefja viðræður um forsendur afvopnunar,“ sagði hann og bætti við að hann ætlaði að heimsækja Bandaríkin í apríl til að ræða við Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert