Scholz og Maas í nýju stjórninni

Heiko Maas og Olaf Scholz.
Heiko Maas og Olaf Scholz. AFP

Þýskir jafnaðarmenn tilkynntu í dag hverjir tækju við tveimur af valdamestu embættunum í nýrri ríkisstjórn þeirra með kristilegum demókrötum. Tilkynningin kom frá Andrea Nahles sem gert er ráð fyrir að verði næsti leiðtogi þýska Jafnaðarmannaflokksins.

Fram kemur í frétt AFP að Olaf Scholz, starfandi leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, verði næsti fjármálaráðherra Þýskalands, en fjármálaráðuneytið var áður í höndum Wolfgang Schäuble frá kristilegum demókrötum. Schäuble gegndi embættinu frá 2009 þar til hann lét af því síðasta haust og varð forseti þýska sambandsþingsins.

Heiko Maas, fráfarandi dómsmálaráðherra, mun taka við utanríkisráðuneytinu sem áður var stýrt af Sigmar Gabriel, fyrrverandi leiðtoga jafnaðarmanna en fráfarandi ríkisstjórn var mynduð af sömu flokkum undir forystu Angelu Merkel, leiðtoga Kristilega demókrataflokksins. Hún verður áfram kanslari í nýrri stjórn.

Merkel hefur verið kanslari Þýskalands í 12 ár. Þingkosningar fóru fram í landinu í lok september en ekki tókst að mynda nýja stjórn fyrr en á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert