Trump þiggur boð Kim um fund

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un hefur boðið Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, á sinn fund og hefur sá síðarnefndi sagt að hann muni þiggja boðið. Jafnframt hefur Kim samþykkt að stöðva kjarnorku- og eldflaugatilraunir landsins.

Samkvæmt frétt BBC var það háttsettur embættismaður frá Suður-Kóreu sem starfar í Washington sem færði bandarískum yfirvöldum bréf frá Kim þar sem hann óskar eftir fundi með Trump. 

Trump segir þetta vera mikið framfaraspor en að áfram verði viðskiptaþvinganir í gildi gagnvart N-Kóreu. Að minnsta kosti þangað til formlegt samkomulag hafi náðst. Norður-Kórea hefur ekki gefið út neina formlega yfirlýsingu vegna málsins.

Þjóðaröryggisráðgjafi Suður-Kóreu, Chung Eui-yong, ræddi við fréttamenn fyrir utan Hvíta húsið eftir fund með Trump. Þar sagðist hann hafa tjáð Trump að leiðtogi Norður-Kóreu,  Kim Jong-un, hafi sagt á fundi með ráðamönnum í Suður-Kóreu að hann væri reiðubúinn til þess að afkjarnorkuvæðast.

Chung segir að Trump hafi sagt að hann væri reiðubúinn að hitta Kim Jong-un í maí þar sem þeir myndu ræða formlega um afkjarnorkuvæðingu N-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert