Trump fær hernaðarskrúðgöngu

Trump heillaðist af Bastilludagsgöngunni í París.
Trump heillaðist af Bastilludagsgöngunni í París. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti fær ósk sína uppfyllta á Vopnahlésdaginn þann 11. nóvember næstkomandi, en þá verður haldin sérstök hernaðarskrúðganga. Ekki hefur verið hefð fyrir slíkum skrúðgöngum í Bandaríkjunum nema til að fagna sigri við endalok stríðs. BBC greinir frá.

Trump mun hafa óskað eftir því í janúar að slík skrúðganga fari fram á Vopnahlésdaginn, sem markar endalok Fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1918, eftir að hafa heillast af göngunni í París á Bastilludeginum í fyrra. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur nú staðfest að hernaðarskrúðgangan fari fram.

Í minnisblaði vegna yfirlýsingarinnar segir að engir skriðdrekar verði notaðir, heldur aðeins ökutæki á hjólum, til að halda skemmdum á vegum í lágmarki. Gengið verður frá Hvíta húsinu og að þinghúsinu og verður áhersla lögð á störf bandarískra hermanna í gegn um aldirnar, allt frá bandaríska frelsisstríðinu.

Áætlað er að gangan muni kosta bandaríska skattborgara 30 milljónir Bandaríkjadala og hefur ákvörðunin verið gagnrýnd úr ýmsum áttum, meðal annars af demókrötum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert