Grunuð um að hafa myrt dóttur sína

Gabriel Cruz var átta ára gamall þegar hann var drepinn …
Gabriel Cruz var átta ára gamall þegar hann var drepinn af stjúpmóður sinni. AFP

Stjúpmóðir Gabriel Cruz, Ana Julia Quezada, var á sínum tíma grunuð um að hafa átt aðild að dauða fjögurra ára gamallar dóttur sinnar árið 1996 en dóttir hennar féll út um glugga á fjölbýlishúsi. Niðurstaða dómstóls var að um slys hafi verið að ræða. Quezada er grunuð um að hafa myrt Cruz.

Líkt og fram kom í frétt mbl.is í gær fannst lík drengsins í skotti bifreiðar hennar í gærmorgun en hans hafði verið saknað frá því 27. febrúar.

Lögreglan fór að fá grunsemdir um að Quezada tengdist hvarfi drengsins þann 3. mars eftir að hún sagðist hafa fundið stuttermabol í hans eigu í um 10 km fjarlægð frá þeim stað þar sem síðast sást til hans, í þorpinu Las Hortichuelas, skammt frá Almería þar sem hann fór frá ömmu sinni til þess að leika við vin í nágrenninu.

Lögregla staðfesti að lífsýni úr Gabriel, sem var átta ára gamall, hafi fundist á bolnum en að sögn Quezada fann hún bolinn á svæði þar sem lögregla hafði þegar leitað á. Að sögn spænskra fjölmiðla fylgdist lögreglan grannt með öllum hennar ferðum frá þeim tíma.

Fjölmiðlar greina frá því að lögreglan hafi elt Quezada, sem er 43 ára gömul og frá Dóminíska lýðveldinu, að sumarhúsi ömmu Gabriels þar sem hún sótti líkið í brunn og setti í skottið á bíl sínum. Lögreglan elti hana síðan og handtók fyrir utan íbúð hennar. Faðir Gabriels, Ángel, liggur ekki undir grun um að eiga aðild að morðinu.



El País greinir frá því í dag að þegar lögreglan fór að rannsaka sakaskrá Quezada hafi komið í ljós að hún var grunuð um að hafa myrt dóttur sína árið 1996.

Patricia Ramírez, móðir Gabriel Cruz, biður fólk um að hætta að tala um Ana Julia Quezada og láta í ljós reiði í hennar garð með því að senda hatursskilaboð inn á samfélagsmiðla. „Við skulum ekki tala meira um Ana Julia. Það gerir engum gott,“ segir hún.  Reynið frekar að muna eftir hinu góða segir Ramírez og þakkar börnum fyrir þá ást og samstöðu sem þau hafi sýnt í garð fjölskyldunnar undanfarna daga.

Frétt El País

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert