Á versta veg í Noregi

Norskir vegir eru nánast eins misjafnir og þeir eru margir, …
Norskir vegir eru nánast eins misjafnir og þeir eru margir, brátt verður nýr „versti vegur Noregs“ krýndur en þegar hafa borist yfir 2.000 tillögur. Myndin er af Fylkisvegi 110 í Þelamörk. Ljósmynd/Wikipedia.org/Peter Fiskerstrand

Norska ríkisútvarpinu NRK þótti nóg um að fylkisvegur 60 á milli Olden og Innvik í Sognsæ og Firðafylki hafi síðan 2008 borið titilinn „versti vegur Noregs“ og auglýsti í gær eftir tilnefningum svo velja mætti arftaka þessa vafasama heiðurs. Lítill hörgull er á vegleysum í Noregi enda bárust yfir 2.000 tillögur á fyrsta sólarhring kosningarinnar.

Flest hefur verið tínt til og hefur norskur almenningur látið móðan mása um allt frá vegaslóðum í dreifbýli, þar sem jafnvel er ekið um gömul handgerð jarðgöng, upp í margra akreina þjóðvegi þar sem kveikjan að tilnefningunni er að oft myndist langar bílaraðir á brautinni sem þekkist víða um landið og nægir þar að nefna E6-brautina í kringum Ósló og E39 á vesturlandinu sem sums staðar er aðeins ein akrein í hvora átt og nægir að lenda þar á eftir strætisvagni á spottanum milli Stavanger og Ålgård til að eyðileggja dag sumra.

„Vegurinn sem guð gleymdi og andskotinn yfirgaf“

Margt vatn hefur þó runnið til sjávar síðan netmiðillinn Nettavisen stóð fyrir valinu á versta veginum árið 2008 og streymdu tillögurnar inn til NRK þegar auglýst var eftir hugmyndum í gær. Eðlilega gerðu margir tillöguhöfundar grein fyrir atkvæði sínu og bar á myndrænustu lýsingum og rökum inn á milli svo sem sjá má af því sem NRK taldi meðal fleygustu ummæla:

Eftir margra ára frestun viðhalds er vegurinn svo rotinn að varla er hægt að aka hann án nýrnabeltis. (Kafli á fylkisvegi 710 í Þrændalögum).

Vegurinn sem guð gleymdi og andskotinn yfirgaf. (Kafli á fylkisvegi 569 í Hörðalandi).

[...] hættulegt slitið yfirborðið hallar í átt að skurðunum [við vegkantana]. Heimskulegt að gera ráð fyrir að allir í Noregi aki á nagladekkjum. (Þjóðvegur 355 í Þelamörk).

Stórar holur við sporvagnateinana, hjólbarðar margra bíla springa. Gæði vegarins eru á pari við það sem gengur og gerist í Afríku. (Grefsenveien í Ósló).

Trjágróður vex upp úr veginum og á honum eru stórar ójöfnur upp og niður! Ég kaupi ekki bíl af neinum sem hefur ekið um Pasvik [í Finnmörku, nyrst í landinu]! Maður er orðinn sjóveikur eftir tíu mílur til Vaggetem þar sem ég bý! (Fylkisvegur 855 í Finnmörku, norsk míla er í daglegu tali tíu kílómetrar en gömul norsk míla var 11.295 metrar).

Ekki hissa

Stig Skjøstad hjá NAF, Félagi norskra bifreiðaeigenda, segir 2.000 tillögur um ónýta vegi ekki koma flatt upp á hann. „Fólk vill ekki vera með hjartað uppi í hálsi þegar það er úti að aka. Eðlilega er fólk upptekið af ástandi veganna sem það fer um dags daglega,“ segir hann við NRK.

Þeir sem skoðanir hafa á málinu hafa frest til miðnættis annað kvöld, miðvikudag, til að senda inn tilnefningar til verstu vega í aðalhlutverki. Eftir það sest dómnefnd fagaðila yfir málið og á áðurnefnt NAF þar fulltrúa en einnig Félag norskra vörubifreiðaeigenda og samtökin Örugg umferð (n. Trygg trafikk). Nefndin velur tíu kandídata úr innsendum vegum og býðst þjóðinni svo að greiða atkvæði fram að páskum um hver teljast muni Noregs versti vegur á efsta degi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert