„Ég komst ekki út“

„Eftir brotlendinguna reyndi ég að komast út úr flugvélinni enda var hún alelda en ég gat það ekki. Ég var fastur á höndum og fótum,“ segir Keshav Pandey sem var farþegi um borð í flugvél sem fórst í Nepal í gær.

Þeir sem lifðu slysið af og vitni sem sáu flugvélina brotlenda segja að algjör ringulreið hafi ríkt á slysstaðnum. Alls var 71 um borð í flugvélinni sem brotlenti á knattspyrnuvelli skammt frá Tribhuvan-flugvellinum í Katmandú. Að minnsta kosti 49 létust.

Ekki er vitað hvað olli slysinu en verið er að vinna úr gögnum flugrita flugvélarinnar. Þetta er alvarlegasta flugslysið í Nepal í áraraðir. Flugvélin var 17 ára gömul af gerðinni Bombardier Dash 8 Q400. Hún var að koma frá höfuðborg Bangladess, Dhaka. 

Keshav Pandey segir í samtali við BBC að hann hafi setið við hliðina á neyðarútgangi, hann hafi dottið út þegar björgunarmenn hafi opnað dyrnar. „Ég man ekkert eftir það þar sem ég var meðvitundarlaus.“

Annar lýsir miklum eldi fyrir utan og að reykur hafi borist inn í farþegarýmið. „Síðan varð sprenging. Eldurinn var slökktur og okkur var bjargað út,“ segir Sharin Ahmed, 29 ára gamall kennari frá Bangladess, sem var um borð í flugvélinni.

mbl.is