Margir fengið að fjúka hjá Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Rúmur þrettán og hálfur mánuður er liðinn síðan Donald Trump tók við sem forseti Bandaríkjanna og á þeim tíma hafa talsverðar mannabreytingar orðið ekki síst í hans innsta hring. Síðast var Rex Tillerson vikið úr embætti utanríkisráðherra, en hann frétti fyrst af málinu þegar aðstoðarmaður hans benti honum á að Trump hefði greint frá því á Twitter.

Mike Pompeo verður nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna en talið er að hann standi nær áherslum Trumps í utanríkismálum. Rifjuð hafa verið upp þau meintu ummæli Tillersons, sem var áður framkvæmdastjóri olíufélagsins ExxonMobil, á síðasta ári að Trump væri hálfviti. Talsmenn Tillersons þvertóku hins vegar fyrir að þau ummæli hefðu fallið.

Rex Tillerson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Rex Tillerson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Fyrr í þessum mánuði sagði Gary Cohn upp störfum sem efnahagsráðgjafi Trumps vegna ágreinings um viðskiptastefnu forsetans sem nýverið kynnti áform um að leggja verndartolla á innflutt stál og ál. Hope Hicks lét af störfum sem samskiptastjóri Hvíta hússins í lok febrúar en hún var fjórði samskiptastjóri Trumps frá því að hann tók við embætti.

Rob Porter lét af störfum sem háttsettur ráðgjafi Trumps í byrjun febrúar eftir að tvær fyrrverandi eiginkonur hans sökuðu hann um heimilisofbeldi. Steve Bannon var rekinn úr starfi sínu sem helsti ráðgjafi Trumps í ágúst. Reince Priebus var látinn taka pokann sinn í júlímánuði en hann hafði starfað sem skrifstofustjóri Hvíta hússins.

Steve Bannon.
Steve Bannon. AFP

Sennilega hefur enginn verið eins stutt í embætti og Anthony Scaramucci sem tók við sem samskiptastjóri Hvíta hússins í júlí og var rekinn eftir ellefu daga. Sean Spicer var sömuleiðis rekinn úr embætti fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins í júlí. Walter Shaub, yfirmaður siðaskrifstofu ríkisstjórnarinnar, lét einnig af embætti í júlí eftir ágreining við Trump.

Michael Short sagði ennfremur upp störfum í júlí en hann hafði starfað sem aðstoðarfjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins. James Comey var rekinn úr embætti forstjóra alríkislögreglunnar FBI í maí en stofnunin hafði undir hans stjórn verið að rannsaka meint tengsl kosningaherferðar Trumps við rússnesk stjórnvöld.

Michael Dubke hætti sem samskiptastjóri Hvíta hússins í maí. Michael Flynn lét af störfum sem þjóðaröryggisráðgjafi í febrúar eftir að hafa viðurkennt að hann hefði fundað með sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum um viðskiptaþvinganir gegn Rússum.

Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps.
Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Bækur til sölu
Bækur til sölu Adventures of Huckleberry Finn 1884, 1. útg., Fornmannasögur 1-12...
BÓKHALD
NP Þjónusta Býð fram liðveislu við bókanir, reikn-ingsfærslur o.fl. Hafið samban...
ALLT MILLI HIMINS OG JARÐAR !!!!!!!!!!
NOTAÐ&NÝTT er ný verslun á Skemmuvegi 6 á bak við BYKO. Mikið úrval af fallegum ...
3 manna Infrarauður Saunaklefi www.egat.is/infraredsauna.html
Verð: 289.000 Tilboð til 1 des 259.000 - hiti 30-75 C (því 60 - 75 er það sem...