Vísa rússneskum erindrekum úr landi

Theresa May forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May forsætisráðherra Bretlands. AFP

Bretar ætla að vísa 23 rússneskum stjórnarerindrekum úr landi að því er Theresa May forsætisráðherra tilkynnti í þinginu í dag. Hún hafði varað Rússa við því að ef þeir gæfu ekki trúverðug svör um aðkomu sína á morðtilræðinu á Skripal-feðginunum myndi hún grípa til aðgerða gegn þeim.

May hefur í morgun átt fund með fulltrúum bresku leyniþjónustunnar um stöðu rannsóknarinnar. Á þinginu í dag sagði hún Rússa bera ábyrgð á árásinni á feðginin og að ákveðið hefði verið að vísa 23 erindrekum þeirra úr landi. Sagði hún hópinn hafa viku til að yfirgefa landið og að hann samanstæði af leyniþjónustumönnum sem ekki hefðu heimildir til slíkra starfa í Bretlandi. „Þetta er stærsta brottvísun í yfir þrjátíu ár og þetta endurspeglar þá staðreynd að þetta er ekki í fyrsta sinn sem rússneska ríkið fer í aðgerðir gegn landi okkar,“ sagði May. Þá segir hún að ríkisstjórn sín ætli að auka eftirlit með Rússum sem koma til Bretlands.

Stór brottvísun árið 1971

Í frétt Sky segir að sú aðgerð að vísa stjórnarerindrekum úr landi sé aðeins hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. May sagði í þinginu að frekari aðgerðir verði ekki gerðar opinberar að svo stöddu. Sagðist hún hafa viljað eiga í góðu sambandi við stjórnvöld í Rússlandi og að hún sé hrygg yfir því að Vladimír Pútín forseti hafi brugðist við með þeim hætti sem hann hefur gert. 

Sérfræðingur Sky í varnarmálum, Alistair Bunkall, segir að brottreksturinn sé ekki eins víðtækur og sá sem gerður var í Bretlandi árið 1971. Þá var 105 embættismönnum rússneska ríkisins vísað úr landi.

Hann segist til dæmis ekki viss um að sjálfum sendiherra Rússlands verði vísað úr landi þar sem bresk stjórnvöld vilji enn halda opnum þeim möguleika á að hefja viðræður við Rússa um málið.

Í kvöld verður neyðarfundur í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna málsins eins og Bretar hafa óskað eftir. Á fundinum verður tilræðið rætt og farið yfir möguleg viðbrögð vegna þess. 

Rússneska sendiráðið í Bretlandi hefur ítrekað í dag sett inn færslur á Twitter þar sem því er vísað á bug að Rússar hafi nokkuð haft með morðtilræðið á feðginunum Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans að gera. Feðginin fundust meðvitundarlaus á bekk fyrir utan verslunarmiðstöð í Salsibury á Englandi þann 4. mars. Þau eru enn í lífshættu á sjúkrahúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert