Fordæma taugagasárásina á Skripal

Sergei Skripal við réttarhöldin í Rússlandi og dóttir hans Yulia.
Sergei Skripal við réttarhöldin í Rússlandi og dóttir hans Yulia.

Leiðtogar Frakklands, Þýskalands, Bandaríkjanna og Bretlands hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir fordæma taugagasárásina á Skripal-feðginin. Segir í yfirlýsingu ríkjanna að eina trúanlega skýringin sé sú að Rússar beri ábyrgð á árásinni.

Fordæma ríkin, að sögn BBC, árásina sem er fyrsta árás sem gerð hefur verið með taugagasi í Evrópu frá því á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Er hún sögð fela í sér árás á fullveldi Breta.

Bresk stjórnvöld hafa þegar tilkynnt að 23 rússneskum erindrekum verði vísað úr landi og heimsótti Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í dag staðinn þar sem Skripal-feðginin fundust meðvitundarlaus í verslunarmiðstöð í Salisbury.

„Við teljum Rússa ábyrga fyrir þessu óskammfeilna atviki,“ sagði May.

Rússneski gagnnjósnarinn Sergei Skripal og dóttir hans Yulia eru bæði enn þá þungt haldin á sjúkrahúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert