Fundu lík eiginkonu nóbelsverðlaunahafa

Sumire og Ei-ichi Negishi.
Sumire og Ei-ichi Negishi.

Lík eiginkonu handhafa Nóbelsverðlauna, sem sögð var þjást af Parkinsonsjúkdómnum, fannst í landfyllingu í Illinois á þriðjudagskvöld. Eiginmaðurinn, efnafræðiprófessorinn Ei-Ichi Negishi, var ráfandi í nágrenni svæðisins er lík hennar fannst.

Sumire Negishi var áttræð. Negishi er 82 ára. Hann var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Hjónin bjuggu í Indiana og hafði þeirra verið saknað frá því á mánudagskvöld, að því er fram kemur í frétt CNN um málið.

Rannsókn málsins stendur yfir en lögreglan telur að ekkert saknæmt hafi átt sér stað. 

Ei-ichi Negishi hlaut Nóbelsverðlaunin í efnafræði árið 2010 ásamt tveimur öðrum prófessorum. Hann hefur unnið að rannsóknum við Purdie-háskóla í yfir þrjá áratugi. Rektor háskólans, Mitch Daniels, lýsti sorg sinni yfir láti Sumire Negishi í yfirlýsingu. „Í gegnum lífið stóð hún þétt við bakið á eiginmanni sínum sem hefur lagt gríðarlega mikið til vísindanna og til kennslu á fremstu vísindamönnum framtíðarinnar.“

Sagði hann útlit fyrir að Parkinssonsjúkdómurinn hafi loks náð yfirhöndinni og að geðrænir erfiðleikar, sem jafnvel leggist á mikla hugsuði með aldrinum, skýri tildrög málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert