Hvíta húsið styður ákvörðun Breta

Sarah Sanders á blaðamannafundi í Hvíta húsinu.
Sarah Sanders á blaðamannafundi í Hvíta húsinu. AFP

Hvíta húsið stendur þétt við bakið á „nánustu samstarfsþjóð sinni“ Bretlandi og styður ákvörðun þess að reka úr landi 23 rússneska erindreka.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að erindrekarnir verði reknir úr landi eftir að stjórnvöld í Moskvu neituðu að útskýra hvernig það kom til að taugagas sem búið var til í Rússlandi var notað á fyrrverandi njósnara í Bretlandi og dóttur hans. 

Stjórnvöld í Moskvu neita því að tengjast árásinni.  

Sergei Skripal og dóttir hans Yulia.
Sergei Skripal og dóttir hans Yulia.

Talsmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta sakaði Rússa í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu um að grafa undan öryggi þjóða víða um heim.

Í yfirlýsingunni sagði Sarah Sanders, talsmaður Trump, að Bandaríkin vilji tryggja að „hræðileg árás á borð við þessa endurtaki sig ekki“, að því er BBC greindi frá.

Sagði hún brottvikningu rússnesku erindrekanna vera réttmæta.

„Þetta nýjasta athæfi Rússa er í anda við hegðun Rússa þar sem þeir virða ekki alþjóðlegar reglur, grafa undan fullveldi og öryggi þjóða víða um heim og reyna að virða að vettugi vestrænar lýðræðisstofnanir,“ sagði hún í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert