Utanríkisráðherra N-Kóreu til Svíþjóðar

Margot Wallström utanríkisráðherra Svíþjóðar.
Margot Wallström utanríkisráðherra Svíþjóðar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Utanríkisráðherra Norður-Kóreu, Ri Yong-Ho, mun í dag eiga fund með utanríkisráðherra Svíþjóðar, Margot Wallström, í Stokkhólmi en Ri mun einnig funda með sænskum stjórnvöldum á morgun.

Sænska utanríkisráðuneytið staðfesti þetta í tilkynningu til fjölmiðla í morgun. Umræðuefnið er staða Svíþjóðar fyrir hönd Bandaríkjanna, Kanada og Ástralíu í Norður-Kóreu. Eins ástandið á Kóreuskaganum sem er ofarlega á baugi hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Svíþjóð hefur lengi átt í stjórnmálasambandi við Norður-Kóreu en Svíþjóð á einnig fulltrúa í öryggisráðinu 2017-2018. Ráðið hefur einróma fordæmt kjarnorkuvopnaáætlun N-Kóreu og krafist eyðingar vopnanna. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu er ítrekað að Svíþjóð styðji þá ályktun eindregið.

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, sagði í síðustu viku að Svíar væru reiðubúnir að halda fund Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu en þeir ætla að hittast í maí.

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert