Flýja í ofboði undan síðustu orrustunni

Þúsundir almennra borgara streymdu frá austurhluta Ghouta-héraðs í Sýrlandi í gær er herir Assads forseta með stuðningi Rússa færðust nær því en nokkru sinni fyrr að ná þar völdum af uppreisnarhópum. Í nótt létust að minnsta kosti tíu í loftárásum í héraðinu.

Ghouta er í útjaðri höfuðborgarinnar Damaskus. Þar skiptast á dreifbýl svæði, þorp, bæir og borgin Douma. Það komst undir yfirráð nokkurra uppreisnarhópa árið 2012 og skömmu síðar var það sett í herkví stjórnarhersins og hafa íbúarnir verið innlyksa síðan. 

Í gær voru sjö ár liðin frá því að stríðið í Sýrlandi hófst. Á þeim tíma hafa meira en 350 þúsund manns fallið og helmingur hinnar 20 milljóna manna þjóðar lagt á flótta. 

Hernaðarbandalag Assads og Rússa hefur sótt fram af hörku í Ghouta síðustu vikur og í gær héldu árásir þeirra, m.a. úr lofti, áfram af fullum þunga. Talið er að þeir hafi nú náð rúmlega 70% landsvæðisins úr höndum uppreisnarmanna. Þeir hafa skipt svæðinu í þrjá hluta og sækja fram að hverjum og einum þeirra. 

Fólk á flótta frá austurhluta Ghouta-héraðs.
Fólk á flótta frá austurhluta Ghouta-héraðs. AFP

Í kjölfar linnulausra loftárása í gær flúðu uppreisnarmenn í bænum Hammuriyeh í suðurhluta héraðsins af hólmi og stjórnarherinn tók þar völdin. Samkvæmt upplýsingum sem mannúðar- og eftirlitssamtökin The Syrian Observatory for Human Rights hafa aflað svöruðu uppreisnarmennirnir fyrir sig með árásum á bæinn og féllu sautján stjórnarhermenn í þeim.

Þá er einnig sagt að stjórnarherinn hafi náð yfirráðum yfir bænum Al-Rihan með aðstoð Rússa. 

Bærinn Hammuriyeh er hins vegar talinn lykillinn að kjarna yfirráðasvæðis uppreisnarhópanna. Við valdatökuna opnaðist gátt fyrir íbúana frá svæðinu og mátti í gær sjá mikinn straum kvenna og barna út frá svæðinu. Þau báru töskur sínar eða ýttu þeim á undan sér í litlum kerrum. Er þau komu að varðstöðvum stjórnarhersins í Adra í nágrenni Ghouta biðu þar þeirra sjúkrabílar og rútur sem fluttu þau í tímabundin athvörf, að því er fram kemur í frétt AFP-fréttastofunnar. 

Samkvæmt samtökunum þá náðu um 20 þúsund manns að flýja áður en flóttaleiðinni var lokað í gærkvöldi. Sameinuðu þjóðirnar segjast vera að reyna að fá það staðfest hversu margir flúðu. 

Austurhluti Ghouta hefur verið eitt helsta vígi uppreisnarmanna allt frá árinu 2012. Er stjórnarherinn setti svæðið í herkví urðu um 400 þúsund íbúar þess innlyksa og hafa allar götur síðan barist við að draga fram lífið. Matur hefur oft verið af skornum skammti sem og lyf og öll almenn grunnþjónusta. 

Þúsundir flúðu Ghouta í gær en flóttaleiðinni var lokað í …
Þúsundir flúðu Ghouta í gær en flóttaleiðinni var lokað í gærkvöldi. AFP

Í gær tókst að koma bílalest með neyðarbirgðum til stærstu Douma, stærstu borgar svæðisins. „Þetta er aðeins brot af því sem fjölskyldurnar þarfnast,“ sagði í yfirlýsingu frá Rauða krossinum. Í lestinni voru 25 bílar sem fluttu m.a. hveiti og annað hráefni til soltinna íbúa borgarinnar. Er þangað var komið var gerð sprengjuárás svo hjálparstarfsmenn urðu að leita skjóls í skyndi. 

Á þriðjudag og miðvikudag tókst að flytja hóp fólks sem þurfti nauðsynlega á læknisaðstoð að halda frá Douma. 

Í maí í fyrra var Ghouta skilgreint sem svæði þar sem bardagar væru að fjara út og þannig átti að vera hægt að koma þangað neyðarbirgðum. Það gekk hins vegar illa og þann 18. febrúar hóf stjórnarherinn með aðstoð Rússa áhlaup á svæðið með stöðugum loftárásum og miklu mannfalli.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur sakað Rússa um að vera samsekir í grimmdarverkum sem framin hafa verið á svæðinu. 

Sérfræðingar segja að hernaðaraðgerðin í Ghouta hafi verið þaulskipulögð, svæðinu skipt upp í þrjá hluta og þrengt að hverjum þeirra með stöðugum árásum. Takmark Assads er að ná svæðinu á sitt vald til að tryggja áframhaldandi völd í Damaskus en uppreisnarmenn í Ghouta hafa svarað árásum Assads með eldflaugaskotum á höfuðborgina. Tugir hafa fallið í þessum árásum síðustu vikur, m.a. einn í gær, að því er ríkisfréttastofan SANA heldur fram. 

Í Gouta hafa um 1.250 almennir borgarar fallið frá því áhlaupið hófst. Fimmtungur fallinna eru börn. 

Kona ber sofandi barn frá bæ í austurhluta Ghouta-héraðs er …
Kona ber sofandi barn frá bæ í austurhluta Ghouta-héraðs er flóttaleið opnaðist um hríð. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað farið fram á vopnahlé á svæðinu en á þá kröfu hefur ekki verið hlustað. Allar tilraunir til að binda endi á stríðið í Sýrlandi síðustu sjö ár hafa misheppnast algjörlega. 

Mörg önnur ríki hafa skipt sér af átökunum með einhverjum hætti, aðallega Rússar sem standa þétt við bakið á Assad forseta í hans hernaðaraðgerðum. Þá hafa Tyrkir stutt uppreisnarhópa í norðurhluta landsins gegn stjórnarhernum, herskáum hópum íslamista og Kúrdum. 

Í Afrin-héraði eru Tyrkir orðnir fyrirferðarmiklir eftir að þeir hófu þar innrás gegn Kúrdum á svæðinu í lok janúar. Í gær er talið að um 30 þúsund óbreyttir borgarar hafi flúið Afrin-borg sem herir Tyrkja hafa nú umkringt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert