Rúmlega fimm áratugum eftir að John F. Kennedy Bandaríkjaforseti var myrtur má nú loks heyra hann flytja ræðuna sem hann ætlaði sér að flytja í Dallas daginn sem hann lést, 22. nóvember 1963. 

Verkfræðingar, með nýjustu tækni að vopni, hafa endurskapað rödd forsetans fyrrverandi svo að fólk geti hlýtt á Dallas-ræðuna rétt eins og hann sjálfur væri að flytja hana. 

Kennedy var skotinn til bana þennan örlagaríka dag, þá 46 ára að aldri. Hann var þá í bílalest á ferð um borgina á leið til hádegisverðar og átti að flytja ræðuna skömmu síðar. Ræðuna hafði hann þá þegar skrifað og var varðveitt af kaupsýslumanni. Sá hafði fengið ræðuna frá Lyndon B. Johnson, þáverandi varaforseta, sem síðar tók við forsetaembættinu af Kennedy.

Ræðuna er hægt að hlusta á á vef The Times sem fékk breska hljóðtæknifyrirtækið CereProc og írska fyrirtækið Rothco til liðs við sig. Gerður var gagnagrunnur byggður á 831 ræðu og viðtali sem Kennedy flutti á lífsleiðinni. Þannig tókst að búa til upptöku þar sem loks má heyra Kennedy flytja ræðuna með hinu einstaka hljómfalli raddar sinnar.

Upptakan er hluti af verkefninu The Times's JFK: Unsilenced project. Ræðan er 2.590 orð að lengd og það tók fyrirtækin átta vikur að púsla orðum Kennedys saman.

The Times segir ræðuna eiga erindi í dag þegar popúlísk öfl eru orðin fyrirferðamikil í bandarískri pólitík. Í ræðunni sagði Kennedy að hans kynslóð væri „varðmenn á veggjum frelsis heimsins“ (the watchmen on the walls of world freedom). 

Hér má sjá stutta heimildarmynd um gerð upptökunnar á vef Times en til að hlusta á John F. Kennedy flytja ræðuna þarf að skrá sig inn.