Klámmyndaleikkonunni var hótað

Stormy Daniels.
Stormy Daniels. AFP

Lögfræðingur klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels segir að henni hafi verið hótað líkamsmeiðingum. Lögfræðingur Donalds Trump Bandaríkjaforseta borgaði henni því sem samsvarar 13 milljónum íslenskra króna til að hún myndi ekki tala um meint samband hennar og forsetans.

Daniels mun mæta í rétt­ar­sal 12. júlí þar sem mál henn­ar gegn Trump verður tekið fyr­ir. Hún höfðaði mál gegn for­set­an­um fyrr í mánuðinum vegna þess hún tel­ur að þagn­ar­sam­komu­lag þeirra sé ómerkt. Daniels hef­ur boðist til að end­ur­greiða það sem Michael Cohen, lögmaður Trumps, greiddi henni til að hún geti talað opinskátt um sambandið við forsetann.

Donald Trump ásamt eiginkonu sinni, Melaniu. Þau gengu í það …
Donald Trump ásamt eiginkonu sinni, Melaniu. Þau gengu í það heilaga árið 2005 en meint samband Trumps og Daniels átti sér stað árin 2006 og 2007. AFP

Lögfræðingur Daniels, Michael Avenatti, vildi ekki segja til um hvort hótanirnir sem Daniels hefðu borist kæmu frá forsetanum. Avenatti ræddi málið í morgunþætti á MSNBC sjónvarpsstöðinni. Hann sagðist ekki geta sagt til um hvort forsetinn stæði á bak við hótanirnir, né hversu alvarlegar þær væru.

„Ég get ekki tjáð mig nánar um málið,“ sagði Avenatti sem gat þó staðfest að Daniels hefði verið hótað.

Lögmaður Trumps út­bjó sam­komu­lag þar sem því er heitið að hún fái greidda 130 þúsund Banda­ríkjdali frá fyr­ir­tæk­inu Essential Consult­ants LLC ef hún þegi um sam­bandið við Trump. Notaði hann dul­nefn­in Peggy Peter­son og Dav­id Denn­i­son á sam­komu­lagið og áttu þau Clifford og Trump að skrifa und­ir ásamt full­trúa Essential Consult­ants.

Nokkr­um dög­um fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar í nóv­em­ber 2016 skrifaði Clifford und­ir og eins Cohen fyr­ir hönd Essential Consult­ants. En Trump skrifaði aft­ur á móti ekki und­ir og það þýðir að sam­komu­lagið er ekki í gildi að sögn lög­manns henn­ar.

Frétt Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert