Meirihlutinn á móti orkumálapakkanum

Ljósmynd/Norden.org

Meirihluti Norðmanna er andvígur því að norskir ráðamenn samþykki nýjan orkumálapakka Evrópusambandsins í gegnum aðild Noregs að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar.

Fjallað er um könnunina, sem var gerð af fyrirtækinu Sentio, meðal annars á fréttavef norska dagblaðsins Nationen, en samkvæmt henni eru 52,3% Norðmanna andvíg því að orkumálapakkinn verði samþykktur en 8,8% eru hlynnt því. Aðrir taka ekki afstöðu.

Mikilar umræður hafa verið um orkumálapakkann í Noregi en stjórnvöld vilja fá hann samþykktan í norska þinginu. Atkvæðagreiðsla er fyrirhuguð í næstu viku. Mikil andstaða er hins vegar á meðal norskra stjórnmálamanna við málið.

Miðflokkurinn, Kristulegi þjóðarflokkurinn og Sósíalíski vinstriflokkurinn leggjast gegn samþykkt orkumálapakkans og skiptar skoðanir eru innan Verkamannaflokksins og Framfaraflokksins um málið. Hægriflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn styðja það.

Ríkisstjórn Noregs samanstendur af Hægriflokknum, Framfaraflokknum og Frjálslynda flokknum. Um minnihlutastjórn er að ræða sem studd er af Kristilega þjóðarflokknum. Örlög málsins ráðast því líklega af atkvæðum þingmanna Framfaraflokksins og Verkamannaflokksins.

Gagnrýnendur segja að samþykkt pakkans muni færa fullveldi yfir norskum orkumálum til orkustofnunar Evrópusambandsins og leiða til mun hærra orkuverðs til almennings. Ætlast er einnig til að Ísland samþykki orkumálapakkann vegna aðildar landsins að EES-samningnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert