Forseti kvikmyndakademíunnar ásakaður um kynferðislega áreitni

Forseti bandarísku kvikmyndaakademóunnar, John Bailey, er til rannsóknar hjá akademíunni …
Forseti bandarísku kvikmyndaakademóunnar, John Bailey, er til rannsóknar hjá akademíunni vegna ásakana um kynferðislega áreitni. AFP

Rannsókn stendur yfir á John Bailey, forseta Bandarísku kvikmyndaakademíunnar, vegna ásakana á hendur honum um kynferðislega áreitni. Síðastliðinn miðvikudag barst akademíunni þrjár ábendingar þar sem Bailey er sakaður um kynferðislega áreitni. Variety greindi fyrst frá málinu.

Akademían hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að enginn innan hennar muni tjá sig um ásakanirnar þar til rannsókn lýkur. Nefnd innan akademíunnar rannsakar málið, en nefndin sem um ræðir hefur einnig það hlutverk að úthluta Óskarsverðlaununum ár hvert.

„Akademían höndlar allar ábendingar með trúnaði af virðingu við þá sem eiga hlut að máli,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Bailey, sem er 75 ára, tók við stöðu forseta kvikmyndaakademíunnar í ágúst. Ef honum verður gert að segja af sér mun Lois Burwell, förðunarfræðingur, taka tímabundið við stöðu forseta, þar til næstu kosningar fara fram í júlí.

Kvikmyndatökumaðurinn Bailey hefur verið heiðraður ótal sinnum fyrir störf sín og er hann líklega þekktastur fyrir kvikmyndirnar Ordinary People, American Gigolo, The Big Chill og Groundhog Day.

Bailey tók þátt í að móta nýja stefnu akademíunnar í kynferðisbrotamálum eftir að kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein var rekinn úr akademíunni í október á síðasta ári vegna ítrekaðra ásakana á hendur honum um kynferðisofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert